Sigur á Grindavík

Haukar mættu í dag Grindavík í Iceland Express deild kvenna í körfubolta í dag á Ásvöllum. Leikurinn náði aldrei miklu flugi og mjög lítið var skorað í leiknum sem endaði 60-36 fyrir Hauka.

Haukar eru því taplausir í IE-deildinni en liðið vann KR í fyrsta leik sínum á dögunum.

 Jafnræði var með liðunum til að byrja með og erfiðlega gekk fyrir bæði lið að finna leið að körfunni og var staðan eftir fyrsta leikhluta 14-8.

Í öðrum leikhluta fóru liðin að hitta betur en Haukar héldu þó alltaf forystunni . Haukastúlkurnar komust 16 stigum yfir eftir tvo þrista frá Gunnhildi Gunnarsdóttur og Guðrúnu Ámundadóttur og var staðan í hálfleik 33-21. Stóru mennirnir hjá Haukum voru þó í vandræðum þar sem bæði Ragna Margrét og Telma voru komnar með 3 villur.

Þriðji leikhluti var frekar tíðindalítill og skoruðu Haukar aðeins 9 stig á móti 4 stigum frá Grindavík og var staðan 42-25 fyrir Haukum að honum loknum. Leikurinn varð aldrei spennandi eftir það og fengu allir leikmenn að spreyta sig.

Stigaskor var mjög jafnt hjá Haukum annað en hjá Grindvíkingum þar sem Clark skoraði næstum helming stiga þeirra.

Atkvæðamestar hjá Haukum voru Íris Sverrisdóttir og Ragna Margrét Brynjarsdóttir með 10 stig hvor, Gunnhildur Gunnarsdóttir með 9 stig og Telma Fjalarsdóttir með 8 stig og 9 fráköst. Helga Jónasardóttir var einnig grimm í fráköstunum og tók hún 4 sóknarfráköst og 7 varnarfráköst.