Í síðustu viku skrifaði Sigríður Björk Þorláksdóttir undir eins árs samning við Hauka en hún lék á síðasta tímabili með Breiðablik í Landsbankadeildinni og kláraði svo tímabilið með Hetti á Egilstöðum. Sigríður er því sjöundi nýji leikmaðurinn sem Salih Heimir Porca fær til liðs við sig eftir að hann tók við liðinu í vetur.
Sigríður er mikill reynslubolti en hún er fædd árið 1977. Hún er afar fjölhæfur leikmaður sem getur spilað hvar sem er framarlega á vellinum en í samtali við Haukar.is sagði Porca að hann mundi líklega nota hana sem framherja „ Hún getur spilað margar stöður á vellinum og það er mikill kraftur og reynsla í henni en ég mun líklega nota hana sem framherja hjá okkur þó að hún geti einnig spilað aðrar stöður ,“ sagði Porca.
Sigríður hefur komið víða við á sínum ferli en hún lék með Haukum árið 2006 en þá var Salih Heimir einmitt þjálfari Hauka „ Ég þekki ágætlega til hennar og ég er gríðarlega ánægður með að hafa fengið hana. Hún var nokkurnvegin hætt í fótbolta fyrir þremur árum en þá fékk ég hana til mín til Hauka. Hún fór síðan til Hattar á Egilstöðum og lék þar í eitt ár en lék svo fyrri hluta tímabilsins í fyrra með Breiðabliki en fór svo aftur til Hattar seinni parts sumars í fyrra,“ en þar skoraði hún fimm mörk í fimm leikjum.
„Hún var svo án félags nú og ég var fyrstur til að grípa í hana og fékk hana til að koma á æfingar, henni leist mjög vel á þetta allt saman og því fór sem fór og nú er ég himinlifandi.“
„ Hún spilaði mjög vel í gær (gegn Breiðablik í Faxaflóamótinu) og lét varnarmenn Breiðabliks hafa fyrir sér. En það má ekki gleyma því að þó að þetta sé sjöundi leikmaðurinn sem kemur til liðsins voru fyrir margar ungar og efnilegar stelpur sem munu fá tækifæri. Það eru margar stelpur úr 2.flokknum sem hafa æft vel í vetur og þær fá góða reynslu að æfa með þessum stelpum og spila með en þær þurfa að taka ábyrgð eins og þessar eldri. Það er því björt framtíð á Ásvöllum,“ sagði Porca en aðspurður hvort að fleiri leikmenn væru á leiðinni sagði hann þetta,
„Já, það eru fleiri leikmenn í sigtinu sem eiga einungis eftir að fá félagsskiptin í gegn. Hver sagði svo að það væri erfitt að fá leikmenn í Hauka? ,“ sagði Porca að lokum en það er greinilegt að það verður vel tekið á því í sumar í 1.deildinni.
Frekari fréttir um nýja leikmenn verða birtar hér á síðunni um leið og eitthvað gerist.