SG Flensburg-Handewitt sýnir Sigurbergi áhuga

Sigurbergur Sveinsson hefur vakið athygli fyrir vasklega framgönguÞýska stórliðið SG Flensburg-Handewitt hefur sýnt áhuga á að fá Sigurberg Sveinsson í sínar raðir strax í þessum mánuði en Sigurbergur heimsótti liðið í síðasta mánuði. Engar viðræður hafa þó enn átt sér stað á milli liðanna tveggja um möguleikann á að losa Sigurberg undan samningi en búast má við frekari fréttum af málinu á næstu dögum.

SG Flensburg-Handewitt er sem stendur í fjórða sæti þýsku deildarinnar en liðið hefur marga hildina háð um meistaratitilinn við nágrannana í Kiel. Bæði liðin hafa ætíð á mörgum Norðurlandabúum að skipa og hafa Kiel haft tilhneigingu til að hafa marga Svía innanborðs á meðan Danir hafa verið fjölmennir í liði Flensburgar og gildir þá einu hvort litið er á leikmannahópinn, þjálfarateymið eða styrktaraðila. Hvort það sé þess vegna sem Kiel hefur oftar farið með sigur af hólmi í einvígi þessara liða skal ósagt látið en sem kunnugt er hafa lið á borð við Hamburg og Rhein-Neckar Löwen blandað sér í toppbaráttuna. Um þessar mundir er það þó Svíi sem er þjálfari liðsins en það er gamla línumannströllið Per Carlén sem var okkur Íslendingum oft erfiður ljár í þúfu auk þess sem litla vöðvatrölluð Ljubomir Vranjes er einn af forystumönnum klúbbsins. Áður hafði Viggó Sigurðsson leyst annan Svía af hólmi vegna veikinda, Kent Harry Andersson, með ágætum árangri en Íslandsvinurinn Anders Dahl Nielsen og Erik Veje Rasmussen eru meðal þeirra Dana sem hafa stýrt liðinu. Alexander Petterson er að leika þriðja tímabil sitt með liðinu en hann hefur fengið færri tækifæri á þessu tímabili en þeim fyrri.

Flensburg hefur einu sinni unnið þýska meistaratitilinn en það var árið 2004 undir stjórn Kent Harry. Liðið hefur hampað fjórum titlum í Evrópukeppninni, þó aldrei í Meistaradeildinni þrátt fyrir að hafa leikið til úrslita í tvígang. Heimavöllur liðsins, Campushalle, tekur rúmlega 6 þúsund manns og eru bekkirnir iðulega þéttskipaðir. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu liðsins velti klúbburinn um 5 milljónum evra á tímabilinu 2007-8 eða tæplega 500 m.kr. miðað við gengi evrunnar um þær mundir (900 m.kr. á núverandi gengi). Af þessu fór um 70% í laun til handa leikmönnum skv. yfirlýsingum forráðamanna liðsins í viðtölum. Efnahagskreppan hefur þó haft áhrif á rekstur liðsins eins og allra annarra klúbba í álfunni og tóku leikmenn á sig 15% launalækkun fyrir þetta tímabil. Forráðamenn liðsins hafa ennfremur sagt að liðið geti ekki keppt við Hamborg, Rhein-Neckar Löwen og Lemgo þegar kemur að launamálum og litið verði til yngri leikmanna þegar bæta eigi við leikmönnum. Framkvæmdastjórinn gaf reyndar út þá yfirlýsingu fyrir tímabilið að engir nýir leikmenn yrðu keyptir og allra síst þeir sem væru samningsbundir öðrum liðum! (sjá viðtal á heimasíðu liðsins). Liðið framlengdi nýverið samning sinn við danska línumanninn snjalla, Michael Knudsen, og sögur fóru af áhuga liðsins á að fá dönsku skyttuna Mikkael Hansen frá Barcelona þar sem hann hefur lítið fengið að spreyta sig en hann hefur runnið þeim úr greipum til AG Kaupmannahafnar miðað við yfirlýsingar eiganda liðsins.

Eins og áður segir er of snemmt að fullyrða hvort Sigurbergur gangi til liðs við Flensburg en frekari fréttir munu birtast hér á Haukasíðunni þegar þær liggja fyrir.