SG Flensburg-Handewitt – Hverjir eru það?

Meistaradeild EvrópuEins og fram hefur komið á heimasíðunni mæta strákarnir í meistaraflokki karla liði SG Flensburg-Handewitt í öðrum leik sínum í Meistaradeild Evrópu. Leikurinn fer fram í Flensburg á fimmtudagskvöldið og hefst klukkan 18:00 að íslenskum tíma. Um sannkallað stórlið er að ræða sem leikið hefur til úrslita í Evrópukeppnum 8 sinnum á síðustu árum. Liðið lék til úrslita í Meistaradeildinni fyrir tveimur árum.

Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Eurosport 2 auk þess að tölur koma mjög reglulega hér inn á www.haukar.is.

Lið Flensburgar er sannkallað stórlið og hefur liðið leikið til úrslita í Evrópukeppnum 8 sinnum á síðustu 32 árum, tvisvar hefur liðið leikið í undanúrslitum, einu sinni í fjórðungsúrslitum og einu sinni dottið úr í þriðju umferð Evrópukeppni félagsliða. Auk þess hefur liðið einu sinni dottið út í milliriðlum Meistaradeildarinnar. Það er því greinilegt að liðið hefur ríka hefð úr Evrópukeppnum og mjög líklegt að kröfurnar séu háar á þeim bænum. 
 
Þetta er í fimmta sinn á jafnmörgum árum sem liðið leikur í Meistaradeild Evrópu. Í fyrra féll liðið úr í milliriðlum. Árið þar áður hafnaði liðið í öðru sæti, 2005/2006 lék liðið í undanúrslitum, 2004/2005 í fjórðungsúrslitum og 2003/2004 hafnaði liðið í öðru sæti.
 
Flensburg hefur tvisvar sinnum orðið Evrópumeistarar. Þeir sigruðu Evrópukeppni félagsliða árið 1997 og Evrópukeppni bikarhafa árið 2001.
 
Einungis sex leikmenn liðsins eru þýskir. Einn Íslendingur leikur með liðinu en það er Alexander Petterson. Danir í liðinu eru jafnmargir og Þjóðverjar, þrír Svíar eru í liðinu og einn norðmaður. Norðurlandabúar eru því 11 á móti 6 Þjóðverjum, næstum helmingi fleiri. Síðasti leikmaður liðsins er frá Svartfjallalandi. Það má segja að um þýsk/norrænt lið sé að ræða. Auk þess að 11 Norðurlandabúar leika með liðinu er þjálfari liðsins sænskur. Hann heitir Kent-Harry Andersson og hefur meðal annars þjálfað lið IFK Malmö, Ystad IF, Drammen HK og HSG Nordhorn. 
 
Eins og áður segir hefst leikurinn klukkan 18:00 að íslenskum tíma á fimmtudaginn. Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á Eurosport 2 auk þess að tölur koma mjög reglulega hér inn á www.haukar.is fyrir þá sem ekki hafa aðgang að Eurosport 2.