Sævaldur semur við körfuknattleiksdeildina

Körfuknattleiksdeild Hauka hefur samið við Sævald Bjarnason um að ganga í þjálfarateymi meistaraflokks karla og verður hann aðstoðarþjálfari Israel Martin á næsta tímabili. Einnig mun Sævaldur sjá um þjálfun drengjaflokks.

Það er mikill hvalreki að fá Sævald til starfa hjá Haukum enda einn mest menntaði þjálfari landsins. Árið 2019 kláraði Sævaldur FECC FIBA prófið sem er hæsta gráða FIBA í þjálfun en þar fyrir utan er Sævaldur búinn að sitja fjölmörg námskeið sem tengjast körfubolta- eða hugarþjálfun.

Sævaldur segist lýtast vel á verkefnið og sé spenntur að koma til Hauka. „Ég hlakka bara mikið til þess að vinna með Martin og leikmönnum meistaraflokks karla næsta tímabil. Haukar hafa haft undanfarin ár flottan kjarna af leikmönnum og það er spennandi fyrir mig að koma inn og leggja mín lóð á vogarskálarnar og hjálpa liðinu að verða betra.“

„Heilt yfir hlakka ég bara til þess að taka næsta skref. Haukarnir hafa verið í úrslitakeppni undanfarin ár og það er bara mitt verkefni að sanna mig og vonandi nýta mína hæfileika til þess að hjálpa Haukum til þess að verða betri. Ég mun leggja mig allan fram og gera mitt besta til þess að liðinu gangi sem best.“

Sævaldur segist einnig vera spenntur fyrir því að vera mikilvægur partur af því að koma að þjálfun og skipulagi framtíðarinnar til að þess að hjálpa þeim að taka næstu skref á sínum ferli. „Þetta milliskref frá drengjaflokki yfir í unglinga- og meistaraflokk þarf að halda vel utan um og Haukar eru með flotta umgjörð og fínan fjölda í yngri flokkunum. Ég hlakka bara til að koma með mitt inn í öfluga heild.“

Bragi Magnússon, formaður kkd. Hauka er ánægður að fá Sævald til starfa og segir að Haukar leggi mikla áherslu á að fá færa og áhugasama þjálfara til liðs við félagið.

„Þarna fer einn sá metnaðarfyllsti þjálfari sem völ er á og ég er mjög ánægður að fá Sæba til starfa hjá Haukum. Hann lifir fyrir körfuboltann og ég býð hann hjartanlega velkominn á Ásvelli.“

Við bjóðum Sævald velkominn á Ásvelli