Það var troðfull stúkan að Ásvöllum í kvöld enda tilefni til. Blíðskapar veður, sól, heiðskýrt og logn þegar Haukar tóku á móti efsta liðinu og líklega dýrasta liði 1.deildar í ár, liði ÍA.
Eitt mark skildi liðin að í leiknum og það mark kom á 13. mínútu. Markið skoraði miðjumaður ÍA, Arnar Már Guðjónsson, úr vítaspyrnu. Vítaspyrna sem Gunnar Sverrir Gunnarsson dómari leiksins ákvað að gefa Skagamönnum algjörlega úr sínum eigin vasa. Það er greinilegt að Gunnar Sverrir fór ekki illa úr kreppunni og miðað við það sem hann gaf Skagamönnum í leiknum dag, þá hlýtur hann að vera duglegur að styrkja öll þau góðu málefni sem hægt er að styrkja hér á landi.
Jónas Bjarnason og Gunnar Ormslev Ásgeirsson þurftu báðir að fara af velli vegna meiðsla. Jónas með meiðsli aftan í læri og Gunnar fór ílla í náranum. Vonandi að þetta séu ekki slæm meiðsli hjá þeim báðum en nóg hefur verið að gera hjá Rúnari sjúkraþjálfara að undanförnu.
Haukar fengu fá færi í leiknum og greinilegt að liðið saknar Hilmars Emilssonar í framlínunni þó svo að Ísak Örn Þórðarson skili alltaf sínu. Maður leiksins var valinn Grétar Atli Grétarsson en hann stóð upp úr annars jöfnu liði Hauka sem spilaði á köflum fínan fótbolta en bitið í sóknina vantaði.
1 stig úr 3 heimaleikjum Hauka í sumar er allt annað en ásættanlegt, en svona er þetta stundum og því miður þá verður maður að sætta sig við þetta.
Næsti leikur Hauka er í Valitor-bikarnum þegar Haukar taka á móti Keflavík. Leikurinn er næstkomandi mánudag og hefst klukkan 19:15.
Næsti leikur Hauka í deildinni er síðan fimmtudaginn eftir viku, 23.júní þegar Haukar heimsækja Leiknir Reykjavík í Breiðholtið. Leiknismenn rétt misstu af sæti í Pepsi-deildinni í fyrra og hafa byrjað móti í sumar erfiðlega.