Eftir kvennaleikinn í gær var annar leikur í Coca Cola bikarnum í Schenkerhöllinnni. Þar áttust við Haukar 2 og Fylkir. Fylkir leikur í 1. deild en Haukar 2 leika í utandeildinni og þar utan æfa þeir ekkert. Það hallaði því fremur á þá „gömlu“ á pappírunum fyrir þennan leik. En leikmenn Haukar 2 reyndust á köflum enn geta spilað príðis handbolta þrátt fyrir að hraðinn hafi kannski ekki verið mikill en skynsemin vóg það oft upp. Sú ótrúlega staða kom upp í leiknum að Haukarnir voru komnir með 6 marka forskot 22 – 16 en misstu það þó klaufalega frá sér sem skrifast á þreytu og óþolinmæði í sókninni sem Fylkismenn refsuðu með hraðaupphlaupum og náðu að jafna leikinn 22 – 22. Haukar náðu þó að komast aftur í gang og síðustu mínúturnar voru æsispennandi. Fylkir komst yfir en Haukar jöfnuðu og komust yfir 29 – 28. Í síðustu sókn Fylkis fengu þeir dæmt víti sem þeir náðu ekki að nýta og Haukar skoruðu síðasta mark leiksins og góður sigur, 30 – 28 var staðreynd.
Í liðinu hjá Haukum eru margir reyndir handboltamenn sem hafa nýverið eða fyrir löngu síðan lagt keppnisskóna í efstu deild á hilluna. Það skiluðu allir sínu en Halldór Ingólfsson var drjúgur eins og venjulega þar til hann varð að fara af velli vegna tognunar og Gylfi Gylfason var frábær í horninu. Keli og Einar Jóns var seigir að vanda og ekki má heldur gleyma framlagi markvarðarins, sem var „keyptur“ til Hauka á keppnisdegi, Erlingur Reyr eða Krummi. Hann sýndi á köflum stórkostlega takta í markinu, sérstaklega í fyrri hálfleik.
Þjálfari og framkvæmdastjóri liðsins er Örvar Guðmundsson og var hann að rifna úr stolti í leiks lok með árangur „unganna“ sinna.
Nokkuð var af áhorfendum sem skemmtu sér hið besta og eiga þeir góðar þakki fyrir stuðninginn.
Mörk Hauka: Halldór Ingólfsson 6, Þorkell Magnússon 6, Gylfi Gylfason 5, Einar Jónsson 4, Sigurjón Sigurðsson 3, Jón Karl Björnsson 2v, Leon Einar Pétursson 1, Jens Gunnarsson 1, Vigfús Þormar 1, Haukur Jónsson 1,
Áfram Haukar!