Hvað er hægt að segja eftir svona ævintýri? Reykjavíkur maraþonið 2010 var hreint út sagt stórkostleg upplifun og stemningin engu lík. Niðurstaðan var að tæplega sjötíu félagar úr Skokkhópi HAUKA tóku þátt og skemmtu sér konunglega. Lang flestir bættu tímana sína og voru jafnvel dæmi um tuttugu mínútna bætingar í sumum hlaupum. Aldursforsetinn okkar, Eysteinn (varð sjötugur fyrir stuttu) gerði sér lítið fyrir og bætti tímann sinn í 10km. hlaupinu um heilar 10mín. frá árinu áður og hljóp á 58:37. Geri aðrir betur.
HAUKAR sendu 15 sveitir. Sjö sveitir í 10km, sjö sveitir í 21km og eina sveit í 42km. Engin skokkhópur á landinu sendi jafnmargar sveitir og engin skokkhópur var með jafnmarga félaga í hlaupinu. Stemningin meðal félaganna var dásamleg. Þegar upp er staðið er þetta nákvæmlega það sem svona hópur stendur fyrir, þ.e. heilsusamlegt líferni í góðum félagsskap með gleði og ánægju að leiðarljósi.
Að lokum er vert að benda ykkur á sem viljið koma og æfa með svona hressum hóp að það er einfalt mál að mæta á æfingu. Við skokkum mánudaga og miðvikudaga frá Ásvöllum kl. 17.30 og á laugardögum leggjum við að stað kl. 10.00.