Ramune Pekarskyte hefur samið við norska liðið Levanger HK sem leikur undir stjórn Ágústs Jóhannssonar. Ramune heldur utan að loknu yfirstandandi keppnistímabili þegar samningur hennar við Hauka rennur út. Ramune mun ætíð skipa veigamikinn sess í hjörtum Haukafólks fyrir frábært starf fyrir félagið undanfarin ár þar sem hún hefur verið meðal allra fremstu handknattleikskvenna deildarinnar. Haukar munu horfa með söknuði á eftir þessum frábæra leikmanni en um leið gleðjast fyrir hennar hönd að æskudraumur hennar sé nú að rætast.