Haukastrákar í handboltanum léku í gær gegn rússneska liðinu Dinamo Astrakhan í Evrópukeppni bikarhafa. Þetta var fyrri leikur liðanna en sá síðari verður næstkomandi sunnudag, 14. sept., í Rússlandi.
Leikurinn í gær var að mörgu leyti vel spilaður en þó gerðu Haukapiltar fleiri mistök en andstæðingurinn sem reyndist dýrkeypt þegar upp var staðið. Við höfum líka oft séð betri markvörslu en markverðir okkar vörðu aðeins 3 bolta í fyrri hálfleik en Einar Ólafur kom í markið í þeim síðari og átti skínandi leik. Þetta rússneska lið spilar sannarlega ekki þennan gamla staða rússneska handbolta. Þeir voru mjög hreyfanlegir og gerðu vörn Hauka erfitt fyrir. Þeir búa yfir ágætri breytt og skyttur þeirra voru duglegar að kasta á markið af gólfinu, sem er að vísu mjög rússneskt. Okkar menn byrjuðu leikinn vel og eftir 10 mínútna leik var staðan 6 – 4 en þá kom slæmur kafli og Rússarnir snéru leiknum sér í vil og eftir um 20 mínútna leik var staðan orðin 7 – 11. Haukar náðu að laga þessa stöðu fyrir hálfleik og voru hálfleikstölur 13 – 14.
Í þeim síðari héldu Rússarnir uppteknum hætti að hafa tangarhald á leiknum og náðu mest 6 marka forystu 20 – 26 á 51. mínútu leiksins. Haukar náðu aftur að laga stöðuna og lokaniðurstaðan var 27 – 29. Það er ljóst að okkar manna bíður erfitt verkefni út í Rússlandi en miði er möguleiki og við vonum að sjálfsögðu að þeir nái að slá þetta lið út með góðum sigri ytra. Það var ánægjulegt að sjá Tjörva aftur spila með liðinu en hann er að jafna sig eftir uppskurð á öxl sem hann fór í strax eftir síðasta tímabil. Adam Haukur frá frábær í leiknum og einnig átti Heimir Óli og Árni Steinn góða spretti. Eins og áður sagði var Einar Ólafur stórfínn í markinu en hann spilaði allan síðari hálfleikinn.
Mörk Hauka: Adam Haukur 9/3, Heimir Óli 6, Árni Steinn 4, Tjörvi 3, Þröstur 3, Einar Pétur 1 og Leonharð 1.
Markvarsla: Einar Ólafur 15 (50%), Grétar Ari 3 (38%), Giedrius 2 (18%).
Áfram Haukar!