Pétur: Mætum þeim af fullri hörku

Pétur segir að hans menn megi ekki koma inn í leikinn með neitt vanmat.Haukar mæta liði KFÍ í kvöld í lokaumferð IE- deildarinnar. Er þetta gríðarlega mikilvægur leikur fyrir okkar menn því sæti í úrslitakeppninni er í húfi og er samkeppnin hörð við lið Fjölnis sem leikur gegn ÍR á sama tíma. Tveir möguleikar eru í stöðunni. Sigri Haukar eru þeir búnir að gulltryggja sæti sitt þó svo að Fjölnir sigri ÍR en tvö stig skilja þessi lið að. Tapist leikurinn þurfa Haukar að treysta á ÍR-inga því Fjölnir á innbyrðis viðureignina gegn Haukum og gætu því ýtt okkar mönnum niður í 9. sætið. Leikur Fjölnis og ÍR verður spilaður í Dalshúsum og er ljóst að stemningin þar á eftir að vera gífurleg.

Heimasíðan heyrði í Pétri Ingvarssyni, þjálfara Hauka, sem segir að þessi leikur sé griðalega mikilvægur og geti gefið yngri leikmönnum mikla reynslu en Haukaliðið hefur ekki farið í úrslitakeppni síðan tímabilið 2003-04.

„Þetta er gríðarlega mikilvægur leikur fyrir Hauka þar sem liðið hefur ekki komist í úrslitakeppni síðan 2003-04 tímabilið eins erum við með mikið af reynslulitlum leikmönnum sem þurfa að fá smjörþefinn af úrslitakeppninni og því ljóst að við verðum að gefa allt í þetta. Við er enn án Sævars [Haraldssonar] og ólíklegt að hann verði meira með á tímabilinu,“ sagði Pétur en Sævar Ingi hefur verið að berjast við eymsli í baki síðan í janúar sem hann hefur ekki náð sér af.

Pétur segist halda að það séu einhver meiðsli hjá KFÍ liðinu og í ljósi þess að þeir séu fallnir og hafi að litlu að keppa þíðir ekki fyrir Haukaliðið að vera með neitt vanmat og þeir verði að mæta þeim af fullri hörku. 
 
„Ef að við leggjum okkur 100% fram í 40 mín þá lofa ég sigri, ef það verður minna en 100% og færri en 40 mín sem menn leggja sig fram þá getur allt gerst,“ sagði Pétur að lokum.

Leikurinn hefst kl. 19:15 og er stuðningur í kvöld virkilega mikilvægur. Því eru allir Haukamenn beðnir um að gera sér ferð á Ásvelli í kvöld og hvetja liðið inn í úrslitakeppnina. Sem fyrr verður fírað upp í grillinu kl. 18 og borgurum dælt út fram að leik.