Haukar mæta ÍR í 32 liða úrslitum Subwaybikarsins í kvöld á Ásvöllum kl. 19:15. Ljóst er að Haukaliðið mun selja sig dýrt en þeir slógu einmitt út úrvalsdeildarlið í fyrra í 32 liða úrslitum þegar Breiðablik gerði ekki svo góða ferð í fjörðinn.
Leikurinn er fyrir margt athyglisverður en þarna mætast þeir bræður Pétur og Jón Arnar Ingvarssynir. Jón Arnar hefur yfirhöndina í bikarbaráttum en tvívegis varð ÍR bikarmeistari þegar þeir mættu Hamri, sem Pétur þjálfaði, í úrslitum. Það er því ljóst að ÍR hefur mikla bikarsögu og hafa verið drjúgir síðustu ár.
Heimasíðan heyrði að vanda í þjálfara Hauka, Pétri Yngvarssyni, líkt og gert hefur verið fyrir heimaleiki liðsins.
„Leikurinn verður mjög áhugaverður þar sem ÍR er með tvær kynslóðir af Haukamönnum innan sinna raða. Kristinn Jónasson og Vilhjálmur Steinarsson eru af yngri kynslóðinni og Jón Arnar Ingvarsson og Björgvin Jónsson tilheyra eldri kynslóðinni,“ sagði Pétur en þeir Kristinn og Vilhjálmur léku upp flesta yngrflokka liðsins og stigu sín fyrst spor á dansgólfi Hauka.
Þeir Jón Arnar og Björgvin urðu bikarmeistarar með Haukum 1996 ásamt þjálfarateymi Hauka, Pétri og Ívari, þegar rauðir sigruðu skagamenn í eftirminnilegum leik, 85-58.
Pétur segir að ÍR sé með gríðarlega sterkt lið með góða blöndu af yngri og eldri leikmönnum
„Við spiluðum æfingaleik við þá í byrjun september sem við töpuðum með meira en 30 stigum og svo töpuðum við með 25 stigum í Valsmóti gegn þeim en við vitum svo sem hvað þarf að gera til að stöðva þá. Þeir hafa öfluga menn inn í teig og góðar skyttur fyrir utan þannig að við þurfum að takmarka eins og við getum opnum skotum fyrir þá,“ sagði Pétur og bætti við að sóknarlega þyrfti Haukaliðið að nýta sína styrkleika og láta ÍR-inga ekki finna veikleikana.
„Ef við náum að hámarka baráttuvilja allra leikmanna liðsins, þar sem menn eru tilbúnir að berjast fyrir merkið framan á búningnum ásamt stuðningi áhorfenda eigum við ágæta möguleika á sigri,“ sagði Pétur að lokum og vonast eftir fullu húsi Haukamanna í kvöld.