Pétur: Áttum engann stjörnuleik gegn ÍA

Haukar mæta liði Þórs frá Akureyri í dag á Ásvöllum og hefst leikurinn kl. 15:00. Haukar geta plantað sér á topp deildarinnar með sigri en Þórsarar sitja á botni deildarinnar með aðeins einn sigur.

Að vanda heyrðum við í Pétri Ingvarssyni þjálfara Haukaliðsins og ræddum við hann um leikinn.

„Við þurfum fyrst og fremst að hugsa um okkur því við áttum engann stjörnuleik gegn ÍA á fimmtudaginn. Ég hugsa að Þór Ak. séu heldur ekki sáttir með 36 stiga tap fyrir Ármanni á föstudagskvöldið og komi því á Ásvelli til að taka sigur en ef við spilum okkar leik þá eigum við að taka þetta. Ef að við komum ekki tilbúnir þá geta þeir strítt okkur virkilega mikið,” sagði Pétur Ingvarsson þjálfari liðsins þegar að síðan heyrði í honum fyrir leikinn.

Haukar urðu fyrir blóðtöku á fimmtudaginn þegar að Sveinn Ómar Sveinsson braut baugfingursbein í handarbaki hægri handar í leik Hauka gegn ÍA. Pétur segir mikinn missi í Sveini enda sé hann sterkur leikmaður og mikill liðsmaður.

„Þetta er slæmt fyrir liðið að missa hann þar sem hann var að komast inn í þetta aftur eftir meiðsli. Svenni er mikill liðsmaður og var sennilegast besti maður liðsins í fyrra en það verða bara aðrir að stíga upp og fylla hans skarð. Þetta er bara enn eitt verkefnið að leysa og ég trúi því að við munum finna lausn á því,” sagði Pétur um þetta brotthvarf Sveins en ljóst er að Sveinn spilar ekki meira með liðinu á þessu ári.