Orri Freyr á leið í atvinnumennsku

Hornamaðurinn Orri Freyr Þorkelsson hefur samið við Noregsmeistara Elverum til næstu 2ja ára. Orri Freyr yfirgefur því Hauka nú í sumar og heldur á vit ævintýranna í Noregi en Elverum eru ríkjandi meistarar í Noregi og hafa unnið deildina síðustu ár.

Orri Freyr er enn einn uppaldi leikmaðurinn sem Haukar senda út í atvinnumennsku og tekur Orri Freyr því næsta skref á sínum ferli hjá besta liði Noregs. Elverum hefur verið fastur þátttakandi í Meistaradeild Evrópu síðustu tímabili og fær Orri Frey því að spreyta sig á móti bestu liðum og leikmönnum heims á komandi árum.

Orri Freyr hefur lagt hart að sér síðustu ár og er það mikil viðurkenning fyrir þá vinnu að semja við eins sterkt lið og Elverum er. Orri Freyr hefur verið einn af betri hornamönnum Olís deildarinnar síðustu ár og er hann markahæsti leikmaður Hauka á tímabilinu með 92 mörk í þeim 15 leikjum sem hann hefur spilað.

Haukar óska Orra Frey til hamingju með næsta skref á ferlinum en áður en það verður tekið ætlar Orri Freyr að klára sitt síðasta tímabili í Haukabúningnum í bili með stæl.