Olísdeild karla hefst í kvöld

Matthías Árni í kröppum dansi í fyrri leiknum gegn Dinamo AstrakhanNú er handboltinn að byrja að fullum krafti og teflum við fram spennandi liðum í báðum Olísdeildunum. Strákarnir hefja leik í Framhúsinu í kvöld kl. 19:30.
Heimasíðan setti sig í samband við Matthías Árna fyrirliða mfl. karla og spurði hann nokkra spurninga.

Til hamingju með góða frammistöðu á erfiðum útivelli í Rússlandi en þið eruð væntanlega svekktir þar sem þetta virtist vera í höfn þegar lítið var eftir?
„Já það var vissulega svekkjandi að ná ekki að landa stærri sigri, en við getum verið mjög ánægðir með frammistöðuna í leiknum. Við vorum að spila flottan handbolta á löngum köflum, en það má segja að það hafi verið slöku kaflarnir í heimaleiknum sem réðu úrslintum í þessu einvígi við Rússana.“
Fyrsti leikur tímabilsins er á morgun gegn Fram. Hvernig leggst sá leikur í þig?
„Það er alltaf góð spenna og tilhlökkun í hópnum fyrir fyrsta leik. Leikmenn og þjálfarar eru búnir að leggja mikið á sig í undirbúningum sem hófst stuttu eftir að úrslitakeppnin kláraðist í vor, við erum búnir að æfa vel og mætum vel stemmdir í fyrsta leik.“
Heldurðu að það sé þreyta í hópnum eftir erfiðan útileik og langt ferðalag til Rússlands um síðustu helgi?
„Vissulega var ferðalagið til Rússlands langt en það var vel skipulagt og vel staðið að öllu á ferðalaginu og í Rússlandi, þannig menn verða fljótir að leggja einhverja þreytu eftir og mæta klárir og á tánum á móti Fram á morgun.“
Samkvæmt spá þjálfara, fyrirliða og forráðamanna þá er okkur spáð 2. sæti í vetur. Hvernig metur þú stöðuna og telurðu við séum með hóp sem gæti farið alla leið?
„Okkur var spáð þriðja sætinu í fyrra og enduðum í öðru, núna er okkur spáð öðru, endum við þá ekki í fyrsta? Nei ég segi svona. Við erum með flottan hóp í ár sem er að ná vel saman og það er alltaf markmið hjá Hauknum að vera í toppbaráttu á öllum vígstöðum. Það er langt og spennandi mót framundan og til að fara alla leið þarf allt að ganga upp og það á við um okkur og öll hin liðin í deildinni.“
„Að lokum langar mig til að hvetja allt Haukafólk til að fjölmenna á leiki mfl karla og kvenna í vetur og vera dugleg að mæta í rauðu á völlinn og halda áfram að sýna hvað við eigum flott stuðningsfólk í Hauknum.“

Áfram Haukar!