Í kvöld, fimmtudag, verður leikin næst síðasta umferð Olísdeildar karla og fá Haukar lið Akureyrar í heimsókn í Schenkerhöllina. Leikurinn hefst kl. 19:30. Liðin hafa mæst tvisvar í deildinni í vetur og í bæði skiptin hafa Haukar haft betur, unnu 22 – 30 á Akureyri og 26 – 20 að Ásvöllum. Staðan á liðunum í Olísdeildinni er mjög ólík. Haukar eru efstir og ef þeir klára leikinn gegn Akureyri eru þeir orðnir deildarmeistarar.
Ef Haukar misstíga sig gegn Akureyri og Valur vinnur ÍBV þá er staðan á milli Hauka og ÍBV óbreytt og ÍBV getur þá ekki náð Haukum að stigum í síðasta leiknum sem er einmitt heimaleikur okkar manna gegn ÍBV. Ef Haukar tapa og ÍBV vinnur Val þá getur síðasti leikurinn, á mánudaginn 14. apríl, á milli Hauka og ÍBV orðið úrslitaleikur um deildarmeistaratitilinn. Akureyri situr í næst neðsta sæti deildarinnar með 15 stig og á nú möguleika á að losa sig úr því sæti með því að ná sigri í þessum tveimur leikjum sem eru eftir af deildinni. Þetta er staða sem hefur þróast þeim í vil í undanförnum leikjum og því munu þeir væntanlega berjast eins og ljón fyrir þessum stigum sem eru í boði í kvöld á Ásvöllum.
Nú mæta allir og styðja Hauka til sigurs og það væri auðvitað frábært ef þeir ná að klára þetta í kvöld og lyfta bikar sem deildarmeistarar.
Áfram Haukar!