Oddaleikur á fimmtudaginn – ALLIR AÐ MÆTA!

Adam Haukur var markahæstur í kvöld ásamt Einari Pétri, báðir með 6 mörkHaukapiltar léku í kvöld sinn fjórða leik gegn ÍBV á 9 dögum og leikið var í Eyjum. Leikurinn bar þess merki að mikið væri undir en Haukar gátu með sigri tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn en ÍBV varð að sigra til að einvígið færi í oddaleik á Ásvöllum. Lítið var skorað framan af leik og jafnræði var með liðunum. Giedrius hélt uppteknum hætti og lokaði markinu í fyrri hálfleik en okkar mönnum gegn líka illa að skora í þetta skiptið. Mjög umdeilt atvik átti sér stað á 20. mínútu leiksins en þá fékk Jón Þorbjörn að líta rauða spjaldið fyrir mjög litlar sakir. Hálfleikstölur voru 8 – 9 og Haukafólk bara bjartsýnt eftir erfiðan fyrri hálfleik. En eins og í fyrri leiknum í Eyjum þá vantaði okkar mönnum einhvern neista til að leiða leikinn áfram og Eyjamenn komust í 13 – 11 og létu forystuna aldrei af hendi og unnum að lokum sanngjarnan sigur 27 – 20. Sigurbergur fór meiddur af velli en ekki er ljóst núna hve alvarleg meiðsli hans eru. 

Mörk Hauka: Einar Pétur 6, Adam Haukur 6, Árni Steinn 3, Brynjólfur Snær 2, Sigurbergur 2/1, Jónatan Ingi 1.
Markvarsla: Giedrius 13 (37%), Einar Ólafur 1 (17%).

Það verður að segjast eins og er að stemmningin í húsinu var mögnuð og eins og ég hef áður sagt þá er gaman að sjá hvað allir áhorfendur ÍBV eru virkir. Við munum svara fyrir okkur við munum koma til baka og sigra á okkar heimavelli á fimmtudaginn. Þessi fullyrðing á sér sterka stoð ef við fáum ALLA til að mæta og ALLA til að vera virka á pöllunum. Haukafólk fjölmennti svo sannarlega til Eyja en 150 Haukar máttu síns lítils gegn 900 Eyjamönnum.
Leikurinn er í Schenkerhöllinni á fimmtudaginn og hefst kl. 19:45. Boðið verður upp á andlitsmálningu frá kl. 18:00 og Bjössabar mun opna fyrr en venjulega.

Áfram Haukar!