Nokkur orð frá formanni handknattleiksdeildar til Haukamanna

Þorgeir HaraldssonÞorgeir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka, sendir Haukafólki eftirfarandi línur: Á morgun leikum við þriðja leik í undanúrslitum í Schenkerhöllinni, Íþróttamiðstöð Hauka á Ásvöllum, og er mjög mikilvægt að við fáum öflugan stuðning ykkar sem er algerlega nauðsynlegur okkar liði til að halda áfram í úrslitakeppninni.

Síðasti leikur var vel leikinn af okkar liði og vantaði aðeins herslumun til að sigurinn félli okkar megin og er ég fullviss um að einbeitingin og sigurviljinn sem til staðar er í liðinu okkar muni skila okkur áfram á morgun.  Fagmennska okkar þjálfara, liðstjóra, sjúkrateymis og leikmanna í vetur hefur skilað okkur árangri sem flestir öfunda okkur af og við getum verið stolt af.

En úrslitakeppni, eins og við stöndum í nú, er einstök upplifun fyrir þá sem næst standa og er í raun eins og spretthlaup, ekki langhlaup eins og heill vetur í deildarkeppni.

Við leggjum svona leiki ávallt upp eins og bikarleiki, það þarf sem sagt aðeins að vinna leikinn sem er í boði! Og þannig er það núna: ÞAÐ ER LEIKUR Í BOÐI. Við erum áfram með og síðustu leikir skipta því engu máli og allt þvaður um að leikmenn séu viljalausir og saddir á aldrei að heyrast í okkar góða félagi því við vitum betur. Okkur hefur tekist að byggja upp sigurvilja og afrekshefð undanfarin 20 ár sem hefur skilað okkur mörgum góðum stundum og við verðum að vera klár í að standa í lappirnar þótt á móti blási af og til.

Ég vil vitna í orð Patreks eftir síðasta leik:
„Eitt sem kemur sterkt upp í huga minn í kvöld er hvað Haukar eru gott félag. Mér liður illa yfir tapinu í þessum leikjum á móti F.H. en veit að það er karakter í leikmönnum/stuðningsmönnum/samstarfsmönnum svo það eflir mig í að halda áfram með fullt sjálfstraust í næsta verkefni sem er á sunnudaginn. Hlakka til að takast á við sunnudaginn og svona verkefni sem eru krefjandi reyna á mann en við erum sterkir.“

Hér fylgja nokkur gömul gullkorn, sem enn eru í fullu gildi og gott fyrir okkur öll að rifja upp:

Aðgát skal höfð ! Að kunna að sigra og tapa
Oft er talað um uppeldisgildi íþrótta og þess að stunda íþróttir. Uppeldisgildi íþrótta er mikið og þess vegna leggur þátttakan okkur miklar skyldur á herðar. Bæði á herðar þeirra sem taka þátt í leiknum og þeirra sem stjórna og þá einnig og ekki síst á stuðningsmennina sem standa upp í pöllum. Allir geta gert mistök, bæði leikmenn, þjálfarar og dómarar – það fylgir leiknum. Í íþróttum er tekist á, þar er alltaf leikið til sigurs. Ekkert er jafnsætt og góður sigur en menn verða einnig að kunna sér hóf á sigurstundum en gildi íþrótta felst ekki síst í því að kunna að tapa – kunna að taka ósigri. Lið sem kann að tapa, kann að taka mótlæti, er oftar en ekki stærst á slíkum stundum. Haukar hafa átt að skipa einhverjum öflugasta stuðningsmannahópi landsins. Við hvetjum alla stuðningsmenn Hauka til að hafa í heiðri þann fjölskylduanda sem hefur ætíð ríkt í okkar félagi. Við mætum með bros á vör í alla leiki, sama hvernig fer. Við höfum í heiðri íþróttaandann og virðum andstæðinga okkar. Gætum þess hvað við segjum því oft láta menn sér um munn fara ummæli sem betur væru ósögð. Látum það ekki henda okkur. Verum jákvæð og skemmtum okkur á þeim leikjum sem framundan eru. Það gerum við best með jákvæðri hvatningu til leikmanna, þjálfara og dómara. Jákvætt fólk er skemmtilegt fólk. Munum að aðgát skal höfð – þannig heiðrum við best félagið okkar, Hauka.

Ég vil hvetja ykkur öll til að fjölmenna á Ásvelli á morgun og styðja liðið okkar með ráðum og dáðum. Mætum tímanlega, leikurinn hefst kl. 16.00 en við opnum húsið kl. 15.00 og viljum sjá ykkur mæta í rauðu með jákvæðnina sem aðalvopn.

Með Haukakveðju,

Þorgeir