N1-deildin í handbolta hefst á nýjan leik í kvöld eftir langt hlé vegna Evrópukeppninar í handbolta. Strákarnir okkar eiga leik gegn Val og fer hann fram í Vodafonehöllinni á Hlíðarenda kl.19.30. Af leikmannahópnum er allt gott að frétta, engin á við meiðsl að stríða og allir hafa strákarnir æft vel í hléinu.
Haukar hafa tvisvar sinnum áður mætt Völsurum í vetur og unnið í bæði skiptin, fyrst 34-28 í Schenckerhöllinni og 32-21 í Vodafonehöllinni, síðari leikurinn var í Eimskipsbikarnum en sá fyrri í deildinni. Valur situr í 6. sæti deildarinnar með 11 stig, þremur stigum frá Akureyri og Fram sem eru í næstu sætum fyrir ofan. Fjögur efstu liðin í deildinni fara í úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn í vor þannig að leikurinn er feykilega mikilvægur fyrir Valsara ætli þeir sér að eiga möguleika á sæti í úrslitakeppninni.
Að sjálfsögðu er leikurinn einnig mjög mikilvægur fyrir okkur Haukamenn því með sigri treystum við stöðu okkar enn frekar á toppi deildarinnar. Það verður því svo sannarlega hart barist í Vodafonehöllinni í kvöld og er allt Haukafólk kvatt til að fjölmenna og styðja strákana til sigurs!