Nýtt mót hefst í kvöld – allir á Ásvelli

HaukarHátíð allra handboltaunnenda hefst í dag þegar úrslitakeppnin fer af stað. Haukar mæta til keppni sem nýkrýndir deildarmeistarar sem tryggir þeim heimaleikjaréttindi gagnvart öllum öðrum þátttakendum en að öllu öðru leyti er um algjörlega nýtt mót að ræða. Dagsformið skiptir sköpum um árangur liða í úrslitakeppninni eins og reynslan sýnir. Því ríður á að mæta vel undirbúnir til leiks, með einbeittan sigurvilja að vopni. Haukar mæta HK og Valsmenn berjast við Akueyri. Veislan hefst á Ásvöllum kl. 19:30 í kvöld þegar blásið verður til leiks Hauka og HK. Hlíðarendadrengir taka á móti Norðanmönnum fyrr um daginn og verður sá leikur í beinni útsendingu á RÚV. Haukafólk er hvatt til að styðja dyggilega við bakið á strákunum og búa til skemmtilega umgjörð í kringum þessa hátíð sem úrslitakeppnin er. Góða skemmtun!