Meistaraflokkur karla í knattspyrnu kom heim frá Spáni í nótt eftir viku æfingarferð á staðnum, Costa Ballena. Liðið æfði vel alla ferðina en engir æfingaleikir voru spilaðir að þessu sinni.
Haukar eiga tvo leiki eftir í Lengjubikar karla, gegn Þrótti R. 12.apríl og síðan gegn BÍ/Bolungarvík en ekki er komin dagsetning á þann leik en sá leikur var frestaður vegna veðurs fyrr á árinu.
Stórfrétt dagsins hlýtur þó að vera að í dag verður tilkynntur nýr leikmaður Hauka, Haukar.is náðu tali á Ólafi Jóhannessyni nú í morgunsárið þar sem hann tilkynnti frá þessum tíðundum,
,,Eftir langar viðræður við þennan leikmann höfum við loks komist að niðurstöðu og mun hann skrifa undir eins árs samning við félagið í dag og með möguleika á framlengingu um eitt ár ef Haukum tekst að komast upp um deild,“ sagði Ólafur Jóhannesson.
,,Við ætluðum að vera búnir að ganga frá þessu en þetta tafðist vegna æfingarferðarinnar hjá Haukum,“ sagði hann ennfremur en hann vildi ekki gefa upp að svo stöddu hver leikmaðurinn væri,
,,Við höfum náð að halda þessu leyndu og ætlum því að reyna gera það fram að fréttamannafundinum sem verður klukkan 16:00 í dag í veislusalnum að Ásvöllum þar sem öllum Haukamönnum er velkomið að mæta. Eina sem ég get sagt er að hann hefur gríðarlega reynslu, og hefur spilað í fjölda ára erlendis bæði í Skandinavíu sem og á Englandi. Hann á einnig að baki landsleiki fyrir Íslands hönd,“ sagði hinn geðþekki Ólafur að lokum.
Við hvetjum því allt Haukafólk að mæta í DB Schenkerhöllina klukkan 16:00 í dag og vera viðstödd undirskirft á nýjum leikmanni Hauka.