Nú er komið að Hilmar Emils. að svara fyrir sig

Það styttist með hverri sekúndunni í fyrsta leik Hauka í Pepsi-deild karla og það er engin smá byrjun. Haukar mæta liðinu sem er spáð titlinum í nær öllum fjölmiðlum á útivelli. KR – Haukar í Frostaskjóli þeirra svart-hvítu næsta þriðjudag klukkan 19.15.

Og við höldum áfram að heyra í leikmönnum Hauka og næst er komið að Hilmarnum nr. 2, Hilmari Rafni Emilssyni.

Það mun mikið mæða á þessum snilling í framlínunni í sumar, og kominn tími til að hann láti ljós sitt skína í bestu deild landsins.

Nú eru þið komnir frá Portúgal, hvernig var sú ferð?
Ferðin var frábær í næstum alla staði. Mikið æft, spiluðum tvo leiki og svo var sprellið aldrei langt undan, sérstaklega hjá Jónmundi. Það eina sem hefði mátt fara betur var veðrið enda voru þrumur og eldingar nánast upp á dag.

Var eitthvað sem stóð uppúr í ferðinni?
Klippingin hans Mete, Jonni Flipp, Laddi a.k.a. Tóti Dan, Amir a.k.a. Pacas, kvennabósarnir í herbergi 826, stórsigur ungra á gömlum og 150 glataðar evrur og frábært ástand á boltunum hjá Gamla

Hvernig var liðið að spila í þeim æfingaleikjum sem spilaðir voru í Portúgal, gegn Val og FH?
Liðið var að spila vel í báðum þessum leikjum. Það var lagt áherslu varnarleikinn sem hefur verið upp og ofan í vetur og hann gekk glimrandi vel. Við töpum 1-0 gegn FH í leik þar sem við vorum sterkari aðilinn og svo vinnum við Val sannfærandi 2-0.

Nú hefur þú verið að glíma við margvísleg meiðsli undanfarin ár. Hvernig er líkaminn hjá þér þessa dagana?

Hann er bara við sama heygarðshornið. Ég tognaði á liðbandi í hné í lok síðasta tímabils og var frá í einhverja mánuði vegna þess. Síðan tók táin við í janúar og síðan var kálfinn eitthvað að stríða mér. Svo er ég kominn með “Jumpers knee” sem er álagsmeiðsli á hné. En ég verð kominn í toppstand fyrir mót

Ef þú lítur til baka, þegar þú varst unglingur í 3.deildarfélagi Hauka, getur þú gert þér virkilega grein fyrir því að þú sért að fara spila með sama félaginu í Pepsi-deildinni eftir innan við mánuð?

Nei alls ekki. Ég hef alltaf ætlað mér að spila í efstu deild og fá að gera það með Haukum er eitthvað sem ég bjóst ekki við að ná. Það hefur verið mikill uppgangur í félaginu síðustu ár og það hefur verið lögð áhersla á að fá þá sigurhefð sem hefur verið ríkjandi síðustu ár í handboltanum yfir í fótboltann og það hefur líka gengið svona ágætlega.

Hvernig hefur undirbúningstímabilið fyrir þetta tímabil verið frábrugðið öðrum undirbúningstímabilum?
Já, að einhverju leyti. Við erum komnir með sérstakan þjálfara (Einar) sem sér um styrktar- og lyftingaræfingar og hefur verið stór bæting þar á. Einnig erum við komnir með hausara sem sér um að toppstykkið sé rétt skrúfað á. Að öðru leyti hafa æfingarnar verið svipaðar.
Má búast við markasúpu frá þér í sumar? Án efa

Hefur þú sett þér sjálfum einhver persónuleg markmið?
Sýna hvað í mér býr

Hverjir verða veikleikar Hauka í sumar?

Reynsluleysi

Mun það hrjá liðinu að spila heimaleikina á Vodafone-vellinum?
Það skiptir engu máli hvar við spilum

Eitthvað að lokum?
Áfram Haukar! 

Hrikalega erum við sammála honum, ÁFRAM HAUKAR, en ekki hvað…Nú er bara að gíra sig upp í ruglið og fjölmenna í Frostaskjólið á þriðjudaginn. Og ballið er ekki búið eftir þann leik, því er fólk nokkuð búið að gleyma 16.maí? Ding, dong… Haukar – FH á Vodafone-velli okkar Haukamanna í Reykjavíkinni.