Mikilvægi hvatningar og jákvæðs stuðnings

HaukarÁgætu stuðningsmenn.
Það er skammt stórra högga á milli hjá meistaraflokki karla þessa dagana. Eftir áfallið á sunnudag stendur næsta verkefni fyrir dyrum og það ekki af minni gerðinni, Hafnarfjarðarslagur gegn FH.
Það þarf ekki að taka það fram hversu mikilvægir okkar frábæru stuðningsmenn hafa verið og eru áfram í leikjum sem þessum. Við erum með ungt lið, að mestu skipað strákum í kringum tvítugt, sem eru að stíga sín fyrstu skref í efstu deild. Það hafa verið og verða áfram sveiflur í leik okkar á meðan liðið er að slípast til og því er enn mikilvægara að strákarnir geti reitt sig á stuðning ykkar. Það er margsannað að jákvæður stuðningur af pöllunum ýtir undir sjálfstraust og áræðni leikmanna, sérstaklega þegar á móti blæs. Auðvitað á gagnrýni rétt á sér og hjálpar líka en það er staður og stund fyrir slíkt. Til þess höfum við eldri og reyndari mennirnir breið bök og tökum slíkt á okkur.
Eftir sem áður stöndum við öll í sama báti, leikmenn, stjórn og stuðningsmenn. 

Saman sigrum við og saman töpum við, aðalatriðið er að við stöndum saman. Það er sá þáttur sem öðrum fremur hefur gert Haukana að því veldi sem félagið er í dag og við höfum fram yfir önnur félög. 

Með baráttukveðju,
Einar Örn Jónsson
Fyrirliði meistarflokks karla.