Á sunnudaginn leikur meistaraflokkur karla í handbolta sinn fyrsta leik í Meistaradeild Evrópu. Þá taka þeir á móti úkraínska liðinu ZTR Zaporozhye á Ásvöllum. Leikurinn hefst klukkan 16:00.
Haukar eru síður en svo að taka þátt í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn. Þetta er í fjórða sinn sem Haukar leika í riðlakeppni Meistaradeildarinnar en árin 2003 – 2005 lékum Haukastrákarnir í riðlakeppninni.
Veturinn 2003/2004 sem Haukar tóku þátt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar léku þeir í riðli með Magdeburg, Barcelona og Vardar frá Skopje. Haukar höfnuðu í þriðja sæti riðilsins þar sem þeir meðal annars gerðu eftirminnilegt jafntefli gegn Barcelona á útivelli.
Veturinn 2004/2005 léku Haukastrákarnir aftur í riðlakeppni. Það árið voru mótherjarnir Kiel, Sävehof og Créteil og aftur höfnuðu Haukar í þriðja sæti riðilsins.
Síðast þegar Haukar léku í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu var veturinn 2005/2006. Mótherjar þeirra í það skipti voru Århus, Gorenje Valenje og Torggler. Í þetta skipti varð fjórða sætið hlutskipti Hauka.
Í ár leika Haukar í feikisterkum riðli. Mótherjarnir eru ZTR Zaporozhye frá Úkraníu, Flensburg frá Þýskalandi og Veszprem frá Ungverjalandi. Í fyrstu umferð mætast eins og áður segir Haukar og ZTR Zaporozhye á Ásvöllum en einnig mætast Veszprem og Flensburg í Ungverjalandi. Í annarri umferð fara svo Haukastrákarnir til Þýskalands og leika gegn Flensburg en sá leikur fer fram á fimmtudaginn eftir viku, 9. október. Í sömu umferð mæta ZTR Zaporozhye liði Veszprem á heimavelli. Í þriðju umferðinni mæta svo Haukastrákarnir liði Veszprem á heimavelli og ZTR Zaporozhye sækir Flensburg heim.
Við munum fjalla frekar um Meistaradeildina og leikinn gegn ZTR Zaporozhye á heimasíðunni í vikunni. Sérstaklega vil ég vekja athygli á því að Haukar í horni skulu fylgjast vel með á síðunni næstu daga þar sem við munum birta frábært tilboð á leikinn til félaga í klúbbnum.