Matthías Rúnarsson leikmaður Hauka er uppalinn Sauðkrækingur og lék með liði Tindastóls upp alla yngri flokkana og upp í meistaraflokk. Matti eins og hann er alltaf kallaður er því að mæta uppeldisliðinu í fyrsta skipti en hann hefur ekki leikið neins staðar annars staðar fyrir utan lið Randers er hann bjó í Danmörk.
„Þetta er mjög skrítin tilfinning og í raun alveg nýtt fyrir manni“ sagði Matti þegar síðan heyrði í honum hljóðið. „Fyrsta tilfinning er að það er meiri áhugi að vinna þennan leik, meiri áskorun en maður ber mikla virðingu fyrir sínu gamla liði“ bætti hann við.
Matti spilaði ekkert með liði Tindastóls á síðustu leiktíð fyrir utan einn leik en brjóskskemmdir í hné gerðu það að verkum að hann spilaði ekki meira með. „Ég fór í aðgerð í apríl á þessu ári og þetta lítur út fyrir að ætla að hanga í lagi en það verður bara að koma í ljós“ segir Matti þegar hann er spurður út í meiðslin.
Matti segir að það sé hugur í mönnum og mikilvægt að sigra leikinn. „Ef við sigrum þennan leik þá erum við í góðum málum fyrir famhaldið“
Spurður út í leikinn gegn Hamri hafði Matti þetta að segja: „Það er mjög sætt að byrja mótið með tveimur stigum og mjög sterkt að hafa náð að klára leikinn þrátt fyrir viðsnúninginn sem átti sér stað í fjórða leikhluta“ og á Matti við um atvikið þegar að Haukar misstu niður 11 stiga forskoti og lentu undir gegn Hamri. „Þetta sýnir að hópurinn er þéttur og líklegur til alls“
Matthías og félagar taka á móti Tindastóli í kvöld kl. 19:15 á Ásvöllum.