Það verður sannkallaður nágrannaslagur í N1-deild karla í handknattleik á laugardaginn þegar Hafnarfjarðarliðin, Haukar og FH mætast í DB Schenker-höllinni, að Ásvöllum.
Leikurinn hefst klukkan 15:00. Hafnarfjarðarliðin eru í tveimur efstu sætum deildarinnar, Haukar í því efsta með 25 stig en FH í 2.sæti með 17 stig. Liðin mættust fyrstu umferðinni 10. nóvember á heimavelli FH og þar höfðu Haukar betur 31-18 í mjög svo furðulegum leik.
Haukar.is fengu þrjá fyrrum markmenn beggja liða, þ.e.a.s. markmenn sem hafa spilað bæði með Haukum og FH til að rifja upp gamla og góða tíma. Við erum að tala um þá Magnús Árnason, Magnús Sigmundsson og Jónas Stefánsson.
1. Hvernig lýst þér á Hafnarfjarðarslaginn á laugardaginn?
Magnús Árnason: Eins og oftast áður má búast við spennandi og skemmtilegum leik.
Magnús Sigmundsson: Þetta er alltaf sami slagurinn, skiptir ekki máli hvort að leikið sé í Kaplakrika eða Ásvöllum. það er allt undir.
Jónas Stefánsson: Ég vona svo sannarlega að bæði lið mæti tilbúin til leiks, þessir leikir ættu að vera jafnir og spennandi en það er fljótt að breytast ef menn mæta ekki tilbúnir til leiks.
2. Hefur þú verið duglegur að fylgjast með handboltanum hér heima, eftir að skelin fór á hilluna?
Magnús Árnason: Ég hef alltaf fylgst vel með en mætti kannski vera duglegri að mæta á völlinn.
Magnús Sigmundsson: á hef verið að fylgjast með boltanum hér heima, við missum reglulega leikmenn erlendis en einhvern vegin þá ná menn alltaf að brúa bilið ár eftir ár. En deildin er ekki alveg eins sterk eins og hún var fyrir nokkrum árum.
Jónas Stefánsson: Já reyni það eftir bestu getu.
3. Þeir eru ekki margir leikmennirnir sem hafa spilað bæði með Haukum og FH en það eru þó undantekningar, hver var aðal-ástæðan fyrir því í þínu tilfelli að þú skiptir á milli Hafnarfjaðarliðanna?
Magnús Árnason: Fyrst og fremst voru 2 snillingar í markinu hjá FH og Haukarnir leituðu til mín. Eftir fjögur góð og skemmtileg ár þar voru snillingarnir tveir báðir horfnir á braut frá FH og þá var leitað til mín frá þeim bænum og ég fór aftur heim.
Magnús Sigmundsson: Ég var laus, FH voru með markmann, stutt á æfingu, auðvelt að velja Hauka enda hafði nafni minn,Maggi Árna rutt svolítið brautina fyrir mig.
Jónas Stefánsson: Hún var mjög einföld Mummi Karls þjálfarifór frá FH til Hauka og ég fylgdi honum þangað yfir. Svo spilaði einnig stórt hlutverk að ég átti marga góða félaga í Haukum, svo ekki sé minnst á tengdafjölskylduna sem eru hörðustu Haukamennirnir í bransanum.
4. Hver er þinn eftirminnilegasti Hafnarfjarðarslagurinn sem þú spilaðir?
Magnús Árnason: Þessi er erfið enda langt um liðið og eitthvað farið að skolast til. En til að taka eitt úr var það sennilega þegar við FH ingar unnum Hauka með einu marki í framlengdum oddaleik á Strandgötunni í 8 liða úrslitum Íslandsmótsins, líklega 1995 eða 96 og Haukarnir klúðruðu víti í lokin.
Magnús Sigmundsson: Þessir 17 júní leikir voru alltaf frábærir fyrir leikmenn eða þannig.
Jónas Stefánsson: Ætli það sé ekki leikurinn sem ég náði að verja fimm vítaköst og skoraði svo eitt mark yfir endilangan völlin. Man ekki með hvoru liðinu ég var að spila þá, látum það liggja milli hluta. Þessir leikir voru alltaf toppurinn á tímabilinu og renna svolítið saman í eitt.
5. Hvernig fer leikurinn á laugardaginn?
Magnús Árnason: Haukarnir hafa verið jafnbesta liðið í vetur en FH-ingar hafa verið að koma sterkir upp og líklega er um tvö bestu liðin að ræða í dag. Mér finnst samt FH líklegri en ætla að segja að Haukaseiglan bjargi öðru stiginu og leikurinn endi með jafntefli 27-27.
Magnús Sigmundsson: FH vinnur í hörku leik. 21-22 . Leikur markmannana.
Jónas Stefánsson: Ég er alveg klár á því að Hafnfirðingar fari með sigur af hólmi.
Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að fjölmenna á leikinn á laugardaginn! – ÁFRAM HAUKAR!