Í kvöld verður leikin lokaumferð Olísdeildar karla og fá Haukar lið ÍBV í heimsókn. Þessi leikur hefur enga þýðingu varðandi lokastöðu þessara liða í deildinni en Haukar eru deildarmeistarar og ÍBV er öruggt með 2. sætið. Þessi lið hafa mæst tvisvar í deildinni í vetur og í bæði skiptin hafa okkar menn sigrað. Liðin mættust fyrst í Vestmannaeyjum í september s.l. og lauk þeim leik með stórsigri Hauka, 18 – 30 (10 – 10) en Haukar áttu frábæran seinnihálfleik í þeim leik. Í nóvember s.l. mættust liðin svo í Schenkerhöllinni og lauk þeim leik 30 – 24 (16 – 15).
Spennan í deildinni liggur í hvaða lið nær fjórða sætinu og keppir við okkar menn í undanúrslitunum. Þar koma fjögur lið til greina, Valur, Fram, FH og ÍR. Akureyri á einnig möguleika á að vinna sig upp úr 7. sætinu á kostnað ÍR-inga. Sem sagt spennandi handboltakvöld framundan og við vonum að sjálfsögðu að Haukar vinni leikinn í kvöld og haldi áfram sínu striki og setji tóninn fyrir úrslitakeppnina sem hefst 22. apríl og munu Haukar, sem deildarmeistarar, eiga heimaleikjaréttinn.
Áfram Haukar!