Kristín Fjóla og Milos Peric valin best á lokahófi knattspyrnudeildar

Lokahóf knattspyrnudeildar Hauka var haldið sl. laugardag og var góð mæting og frábær stemning þrátt fyrir vonbrigði á vellinum í sumar. Boðið var upp á framúrskarandi smárétti að hætti Sigþórs Marteinssonar og um veislustjórn sáu þeir Friðbert Bjarki og Jakob Jóhann sem þeim fórst einkar vel úr hendi.  Þá voru leikmenn meistaraflokka með skemmtiatriði auk þess Lil Curly keyrði upp stuðið.

Knattspyrnukona Hauka er Kristín Fjóla Sigþórsdóttir og knattspyrnukarl Hauka er Milos Peric en stjórnarfólk knattspyrnudeildar situr í dómnefnd.

Besti leikmaður meistaraflokks karla að mati leikmanna var Milos Peric og Ólafur Darri Sigurjónsson var valinn efnilegastur.

Besti leikmaður meistaraflokks kvenna að mati leikmanna var Kristín Fjóla Sigþórsdóttir og Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir var valin sú efnilegasta.

Þá var öllum þjálfurum þakkað fyrir tímabilið og Einar Ágústsson, sem þjálfað hefur yngri flokka karla, var kvaddur sérstaklega þar sem hann yfirgefur félagið eftir langt starf.

Daginn áður var Dagrún Birta Karlsdóttir heiðruð fyrir að spila sinn 100 leik í deild og bikar með meistaraflokki kvenna.

Að neðan eru myndir af viðkomandi leikmönnum fyrir utan Milos sem fór af landi brott á laugardagskvöldið.

 

Kristín Fjóla

 

Ólafur Darri

 

Ragnheiður Þórunn

 

Hluti þjálfara

Einar Ágústsson ásamt Baldri Pál Guðmundssyni, formanni barna- og unglingaráðs

Dagrún Birta ásamt Halldóri Jóni Garðarssyni, formanni knattspyrnudeildar