Komnir á sigurbraut

Emil Barja fór fyrir Haukum og leiddi lið sitt til sigursÞað var mikil gleði í Schenker-höllinni í gærkvöldi þegar Haukar fengu topplið Keflavíkur í heimsókn. Strákarnir sem hafa verið að tapa leikjum á ögurstundu í allan vetur lönduðu mikilvægum sigri í taugatrekkjandi leik.

Það var fullt af fólki sem lagði leið sína í Schenker-höllina í gær og fengu að sjá skemmtilegan leik. Stigaskorið var ekki hátt enda vörnin til fyrirmyndar hjá báðum liðum.

Eftir ágæta byrjun þá kom slæmur kafli hjá Haukum þar sem Keflavík keyrði upp muninn og leiddi um tíma 24-39. En frábær lokakafli hjá Haukum í fyrri hálfleik hélt þeim í leiknum og staðan 40-42 fyrir gestina í hálfleik.

Í seinni hálfleik var Keflavík ávallt með frumkvæðið í leiknum og það var ekki fyrr en í lokaleikhlutanum sem Haukar komust yfir. Haukar gátu klárað leikinn undir lok venjulegs leiktíma þegar Chris Smith fékk tvo vítaskot og staðan 62-63 Keflavík í vil og 0.7 sekúndur eftir. Chris setti fyrra vítið ofaní en það seinna geigaði og því þurfti að framlengja.

Í framlengingunni voru Haukar sterkari en framlengingin var taugatrekkjandi og spennandi allan tímann. Emil Barja kláraði þetta í lokin með vítaskoti en Keflavík fékk tækifæri til að jafna í lokin en það klikkaði og niðurstaðan 73-71 Haukasigur.

Emil Barja var frábær í liði Hauka í kvöld og leiddi það á báðum endum vallarins. Hann var stigahæstur allra leikmanna með 23 stig. Chris Smith var einnig frábær með 12 stig og 19 fráköst. Í kvöld var í fyrsta skipti í langan tíma þar sem hann klárar leikinn s.s. fær ekki fimm villur en það er gífurlega mikilvægt að stóri maðurinn haldist inná vellinum á lokamínútum leiksins.

Pétur notaði 11 leikmenn í leiknum og lögðu allir sitt á vogarskálarnar.

Næsti leikur hjá strákunum er á morgun sunnudag gegn Fjölni í Grafarvogi. Hefst leikurinn kl. 19.15.

Áfram Haukar!

Tölfræði leiksins

Umfjöllun um leikinn á Karfan.is