Knatthús á Ásvöllum tekið í notkun í október árið 2024.

Til hamingju Haukar!
Bygging knatthús á Ásvöllum í útboð á næstu vikum.
Við fögnum samþykkt bæjarráðs frá í gær þar sem ákveðið var að bjóða út byggingu knatthúss Hauka á Ásvöllum. Langþráður draumur um góða aðstöðu fyrir iðkendur í knattspyrnu er í sjónmáli. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í byrjun október nk. og að knatthúsið verði tekið í notkun í október árið 2024.
Það er vert að þakka öllum sem komið hafa að undirbúningi og hönnun knatthússins fyrir frábær störf. Undirbúningur hefur tekið langan tíma, en sá tími hefur verið vel nýttur. Framkvæmdanefnd knatthússins, undir traustri forystu Kristins Andersen, formanns nefndarinnar og forseta bæjarstjórnar, hefur lagt áherslu á að vanda vel til allra þátta varðandi byggingu hússins. ASK arkitektar, Helgi Már Halldórsson, arkitekt, og hans teymi hefur hannað glæsilegt knatthús sem við getum verið afar stolt af. Núverandi meirihluti bæjarstjórnar á hrós skilið fyrir að standa einhuga að glæsilegri uppbyggingu á Ásvöllum og koma þannig til móts við aukna þjónustuþörf í ört stækkandi íbúabyggð. Þá var það gleðilegt að á fundi bæjarráðs í gær samþykktu allir fulltrúar í bæjarráði samhljóða að farið yrði í útboð knatthússins.
Enn og aftur, til hamingju Haukar!
Áfram Haukar.
Magnús Gunnarsson
Formaður Hauka.