Íslandsmeistarar Hauka hafa ákveðið að bæta við sig leikmanni fyrir seinni hluta Iceland Express-deildarinnar. Stúlkan sem mun bætast í hóp Haukanna heitir Kiki Lund og er 26 ára dönsk landsliðkona sem leikið hefur í spænsku deildinni undanfarin ár.
Kiki, sem er 181 cm. bakvörður, útskrifaðist úr University of Dayton árið 2008 og hélt beint í spænsku deildina þar sem hún lék á síðustu leiktíð með liði Iniexsa Cáceres. Hjá Iniexsa skoraði Kiki rúm 9 stig að meðaltali í leik, tók 2,5 fráköst og var með tæpar tvær stoðsendingar að meðaltali.
Á þessari leiktíð hefur hún leikið með Arranz Jopisa Burgos en ekki fengið mikinn séns. Hún hefur einungis spilað um 10 mínútur í leik og skorað á þeim 2,5 stig að meðaltali og gefið 0,4 stoðsendingar.