Körfuknattleiksdeild Hauka 40 ára

Haukar

Í dag eru 40 ár síðan Körfuknattleiksdeild Hauka var stofnuð en deildin var stofnuð þann 4.nóvember 1971 en deildin var þá endurreist en upphaf körfubolta í Hafnarfirði má rekja til ársins 1960 eða um það leiti sem Körfuknattleikssamband Íslands var stofnað.  Eiríkur Skarphéðinsson var kjörinn fyrsti formaður deildarinnar og leiddi mótunarstarf deildarinnar fyrstu árin. 

Fjöldi sjálfboðaliða hefur komið að starfi deildarinnar í gegnum árin sem allir hafa unnið ómetanlegt starf við að byggja upp körfuknattleiks íþróttina innan raða Hauka. Í dag eru um 30 manna hópur sem kemur að því að reka körfuknattleiksdeildina í Haukum ásamt fjölda þjálfara og öðru starfsfólki Hauka. Því má segja að deildin hafa vaxið og dafnað frá stofnun þó hún beri aldurinn vel.

Á þeim 40 árum sem liðin eru frá stofnun Körfuknattleiksdeildar Hauka þá hefur deildin ávallt verið ein af stærstu og fjölmennustu körfuknattleiksdeildum landsins og verið leiðandi í uppbyggingu körfuknattleiksíþróttarinnar. Haukar hafa alið upp marga af bestu körfuknattleiksmönnum íslands og má þar nefna leikmenn eins og Pálmar Sigurðsson, Jón Arnar Ingvarsson og Helenu Sverrisdóttur. Haukar hafa átt fjölda annarra landsliðsmanna bæði í karla og kvennaflokkum og er skemmst frá því að segja að s.l. vor áttu Haukar 10 unglinga sem tóku þátt í unglingalandsliðsverkefnum. 

Frá stofnun deildarinnar hafa unnist alls 62 íslandsmeistartitlar í yngri flokkum auk fjölmargra bikarmeistaratitla. Meistaraflokkar Hauka hafa unnið alls 11 Íslands og bikarmeistaratitla og því má með sanni segja að deildin sé ein af þeim sigursælustu í körfuknattleik hér á landi.

Þá hafa leikmenn sem alist hafa upp innan körfuknattleiksdeildarinnar Hauka haslað sér völl í fararbroddi körfuknattleikshreyfingarinnar á Íslandi og nú síðast einnig á alþjóða vettvangi. Hér er að sjálfsögðu átt við Ólaf Rafnsson sem stýrði Körfuknattleikssambandi Íslands til margra ára og stýrir nú FIBA Europe og ásamt að vera forseti ÍSÍ. Þá eiga Haukar einnig varaformann Körfuknattleikssambandsins hana Guðbjörgu Norfjörð íþróttastjóra Hauka. Saga körfuknattleikshreyfingarinnar á Íslandi og Hauka er því samofin en  KKÍ á einnig stórafmæli á þessu ári en það var 50 ára fyrr á þessu ári.

Körfuknattleiksdeild Hauka hefur frá stofnun notið mikils stuðnings við starf sitt frá stuðningsmönnum og haft trausta stuðningsaðila sem stutt hafa deildina á margvíslegan hátt í gegnum tíðina. Góa, KFC og Fjarðarkaup hafa frá upphafi stutt deildina með miklum myndarskap og þá hefur Actavís verið aðalstuðningsaðili deildarinnar síðustu 7. ár. Mörg önnur fyrirtæki eins og Rio Tinto Alcan, Fura, TM og N1 hafa nú á síðustu árum bæst við í hóp stuðningsaðila deildarinnar. Stuðningur þessara fyrirtækja við starf deildarinnar er ómetanlegur og er þeim á þessum tímamótum þakkað fyrir ómetanlegan stuðning við Íþróttastarf Hauka.

Körfuknattleiksdeild Hauka hefur ákveðið að halda uppá 40 ára afmælið þann 25.nóvember n.k. með því að slá upp balli í veislusal Hauka og eru allir leikmenn  fyrrverandi og núverandi auk þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem unnið hafa ómetanlegt starf fyrir deildina hvattir til að mæta og fagna þessum tímamótum með deildinni.

Samúel Guðmundsson

Formaður Körfuknattleiksdeildar Hauka