Haukar og Breiðablik áttust við í æfingaleik í hádeginu í dag. Leikurinn fór fram í Fífunni í Kópavogi. Þetta var annar æfingaleikur Hauka á undirbúningstímabilinu en strákarnir fóru með sigur úr bítum úr þeim fyrsta, gegn HK síðasta laugardag, 3-2.
Jafntefli var hinsvegar niðurstaðan í leiknum í dag, þar sem bæði lið skoruðu sitt hvort markið. Breiðablik komust yfir um miðjan fyrri hálfleikinn, með marki úr vítaspyrnu sem þeir fengu á silfurfati.
Aron Freyr Eiríksson jafnaði hinsvegar metin í seinni hálfleik með skallamarki eftir fyrirgjöf frá Ásgeiri Þór Ingólfssyni.
Færin í leiknum í dag voru af skornum skammti og fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum eins og gefur að skilja, þar sem leikurinn endaði 1-1.
Í fyrsta æfingaleiknum var leikmannahópur Hauka 23 leikmenn en mun færri spiluðu hinsvegar leikinn í dag.
Byrjunarlið Hauka í dag var þannig skipað:
Daði Lárusson – Benis Krasniqi, Valur Fannar Gíslason, Guðmundur Viðar Mete, Kristján Ómar Björnsson – Sigurbjörn Örn Hreiðarson – Aron Freyr Eiríksson, Ásgeir Þór Ingólfsson, Hilmar Trausti Arnarsson, Úlfar Hrafn Pálsson – Magnús Páll Gunnarsson.