Meistaraflokkur karla í handbolta spilaði í gærkvöld, föstudagskvöld, leik í Olísdeildinni þar sem mótherjinn var Íslands- og bikarmeistarar ÍBV. Liðin mættust nýverið í undanúrslitum Coca Cola bikarsins þar sem Eyjamenn höfðu betur eftir að Haukarmenn höfðu kastað frá sér sigrinum í seinni hálfleik.
Haukamenn voru því í hefndarhug þegar þeir mættu til Eyja staðráðnir í að sína sitt rétta andlit en þeir léku án Heimis Óla sem er frá vegna meiðsla á ökkla. Ekki gekk það í byrjun því að heimamenn byrjuðu betur og komust í 3 – 1. Þá byrjuðu Haukamenn að finna taktinn með Giedrius í fantaformi í markinu og náðu þeir að jafna í 5 – 5 og komust síðan í 6 – 8 eftir um 20 mínútna leik . Þessari forystu héldu Haukamenn út hálfleikinn og voru 10 – 12 yfir í hálfleik.
Haukamenn héldu áfram að vera sterkari aðilinn í leiknum og náðu að bæta í í byrjun seinni hálfleiks komust mest í 4 marka forystu þegar 18 mínnútur voru eftir af leiknum 13 – 17. Þá gáfu okkar menn aðeins eftir og á næstu tólf mínútum náðu heimamenn að vinna upp þennan mun og staðan orðin 19 – 19 þegar 6 mínútur lifðu leiks. Næstu mínútur voru æsispennandi og skiptust liðin á að skora og spennan því í hámarki og þegar tæp mínúta var eftir af leiknum kom Jón Þorbjörn Haukum yfir 21 – 22. Þegar um 19 sekúndur voru eftir stoppuðu dómarar leiksins tímann og gáfu bekk Haukamanna tveggja mínútna brottvísun sem enginn virtist vita fyrir hvað nákvæmlega en þessa brottvísun náðu heimamenn að nýta sér og á síðustu andartökum leiksins jöfnuðu þeir leikinn og þar við sat 22 – 22 jafntefli staðreynd í hörkuleik. Eftir leik vildi Patrekur þjálfari fá skýringar frá dómurum leiksins sem vildi þó ekki betur til en að þeir gáfu honum rautt spjald eftir mikinn hamagang.
Annars fínt stig á erfiðum útivelli þótt að 2 stig hefðu ekki verið svo ósanngjörn miðað við gang leiksins en eins og svo oft áður í vetur gáfu Haukamenn smá eftir undir lok leiksins og 1 stig niðurstaðan í baráttunni um heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni. Eftir leikinn eru Haukar í 5. sæti með 24 stig 2 stigum á eftir FH í 4. sætinu sem gefur heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni en stigi á undan ÍBV í 6. sætinu sem á einnig leik til góða.
Markaskor Hauka í leiknum dreifðist mjög vel og alls komust 9 leikmenn Hauka á blað í leiknum en þeirra markahæstur var Jón Þorbjörn með 4 mörk og Janus, Tjörvi og Árni Steinn skoruðu 3 hver. Þröstur, Vilhjálmur, Elías Már og Brynjólfur skoruðu 2 mörk hver en Einar Pétur skoraði 1 mark. Í marki Hauka átti Giedreus enn einn stórleikinn framan af leik og varði 16 skot eða um 47% þrátt fyrir að dala aðeins i síðari hálfleiknum en þá kom Einar Ólafur sterkur inn og varði 5 skot undir lok leiksins eða um 57%.
Næsti leikur Haukamanna er gegn Val í Vodafonehöllinni næstkomandi fimmtudag kl. 19:30 og um að gera fyrir Haukafólk að mæta styðja strákanna til sigurs í baráttunni sem framundan er.
Áfram Haukar!