Haukar og ÍR skyldu jöfn í 1.deild kvenna í knattspyrnu í gærkvöld á Ásvöllum. Leik liðanna lyktaði með markalausu jafntelfi í frekar bragdaufum leik. Besta færi heimastúlkna til að skora fékk Þórdís Anna Ásgeirsdóttir er hún komst gegn ein gegn markverði ÍR en brást bogalistinn og lét verja frá sér.
Hinu megin vallarins átti Kristín Lovísa Lárusdóttir frekar náðugan dag í marki Hauka en þurfti þó nokkrum sinnum að grípa inn í sem hún gerði af fádæma öryggi.
Hún átti einnig eitt sinn frábæra markvörslu er hún varði gott skot úr aukaspyrnu ÍR nánast upp í markvinklinum. Haukar eru eftir leikinn í 6. sæti deildarinnar með 7 stig þegar mótið er hálfnað, stelpurnar hafa sigrað einn leik, gert fjögur jafntefli og tapað tveimur leikjum en þær halda nú um helgina austur á bóginn og mæta þar Hetti og Fjarðabyggð í tveimur leikjum.