Foreldrastarf

Knattspyrnufélagið Haukar leggur mikið upp úr góðu samstarfi við foreldra og forráðamenn þeirra barna og unglinga sem stunda æfingar og keppni á vegum deildarinnar.

Við hvetjum foreldra til að sýna íþróttaiðkun barna sinna jákvæðan áhuga, vera hvetjandi varðandi ástundun þeirra, veita þeim skýran ramma hvað varðar æfingasókn, fylgja þeim á kappleiki og líta við á æfingum. Slík hvatning er börnunum mikils virði og eykur líkurnar á að þau haldi áfram að stunda knattspyrnu.

 

Upplýsingar til foreldra

Til að halda foreldrum upplýstum varðandi mót og annað notar félagið forritið Sportabler. Einnig halda sumir þjálfarar úti annars konar samskiptasíðum svo sem á Facebook eða bloggi.  Félagið er með heimasíðu, www.haukar.is.

Knattspyrnufélagið Haukar stuðlar að:

 • eflingu samstarfs við foreldra
 • sem mestri þátttöku foreldra í félagsstarfi
 • foreldrar séu vel upplýstir um markmið deildar og flokka
 • því að fá fleiri foreldra til starf að félagsmálum
 • upplýsingum sé komð til foreldra um hlutverk þeirra í félagsstarfi
 • koma á einföldum reglum sem kveða á um starf og hlutverk foreldra hjá Haukum.
 • Viltu hjálpa til og vera virkari í stuðningi þínum við íþróttaiðkun barns þíns? – Bjóddu fram aðstoð þína, vertu liðsstjóri, bjóddu þig fram foreldraráð, spurðu þjálfarann hvernig þú getur hjálpað til.

 

Ábendingar til foreldra.

Knattspyrnufélagið Haukar vill vekja athygli foreldra á eftirfarandi:

 • Komdu á horfðu á æfingu eða keppni þegar þú getur.  Barninu finnst það gaman!
 • Ekki hvetja bara þitt barn í leik eða keppni, heldur allt liðið.
 • Sýndu jákvæðni og stuðning (líka í mótlæti) – ekki gagnrýna.
 • Berðu virðingu fyrir störfum þjálfarans – ekki reyna að hafa áhrif á hann meðan á leik eða keppni stendur.
 • Dómarinn er til að leiðbeina og kenna jafnt sem að dæma. Ekki gagnrýna ákvarðanir hans.
 • Hvettu barn þitt til að taka þátt í æfingum og keppni. – Ekki beita þau þrýstingi.
 • Spurðu barnið að keppni lokinni hvort var gaman og hvernig það stóð sig. – Ekki endilega hvernig fór, því úrslitin eru ekki aðalatriði.
 • Berðu virðingu fyrir starfi félagsins.
 • Verið virk á foreldrafundum þar sem umræður fara fram um þjálfun og markmið, þar er ykkar vettvangur sem og í foreldraráði.
 • Mundu að það er barnið þitt sem er að taka þátt. – EKKI ÞÚ! Sumum foreldrum hættir til að gleyma því.
 • Viltu hjálpa til og vera virkari í stuðningi þínum við íþróttaiðkun barns þíns? – Bjóddu fram aðstoð þína, vertu liðsstjóri, bjóddu þig fram í foreldraráð, spurðu þjálfarann hvernig þú getur hjálpað til.

 

Foreldrastjórn

Foreldrastjórn er stofnuð í hverjum flokki fyrir sig að hausti. Halda þarf foreldrafund í upphafi starfstímabils, oftast nær á haustin, þar sem þjálfari hjálpar til við að stofna foreldrastjórn og koma henni af stað. Hjá mörgum deildum er einnig starfrækt sérstakt barna- og unglingaráð.

Hlutverk foreldrastjórna er að:

 • kjósa tengiliði við þjálfara og barna og unglingaráð
 • skipuleggja keppnisferðir
 • vera með þjálfara í að skipuleggja félagslega hlutann
 • undirbúa  og skipuleggja fjáraflanir
 • skipuleggja akstur á mót