Stefna Hauka um jafnrétti í starfi

Stefnt skal að því að réttur hvers og eins einstaklings til að stunda íþróttir sé ávallt fyrir hendi. Uppbygging íþrótta, hvort sem um æfingar eða keppni er að ræða, þarf að tryggja að allir hafi sömu tækifæri. Þessi jafnréttishugsjón þarf að verða eitt megineinkenni íþrótta. Einstaklingur á rétt á að vera metinn af verðleikum sínum en ekki vegna uppruna, þjóðfélagsstöðu, litarháttar eða kyns.

Hvers vegna á íþróttahreyfingin að vinna að jafnrétti kynja? Rannsóknir í íþróttaiðkun barna og unglinga sýna að þátttaka í íþróttum hefur bein áhrif á andlega og félagslega vellíðan og styrkir sjálfsmynd þeirra (RUM, Þórólfur Þórlindsson o.fl. 1994). Þessar sömu rannsóknir sýna einnig að þátttaka stúlkna og drengja er ekki sambærileg. Stúlkur stunda íþróttir síður en strákar og brottfall þeirra er mun meira en stráka. Það er óumdeilt að íþróttir hafa uppeldislegt, menntalegt og heilsufarslegt gildi fyrir þá sem þær stunda. Því er mikilvægt að íþróttafélögin séu meðvituð um ábyrgð sína og áhrifamátt hvað þetta varðar og tryggi að allir hafi þar sambærilega möguleika.

Knattspyrndudeild Hauka gerir sig út fyrir það að bjóða upp á æfingar í öllum flokkum í báðum kynjum. Reynt er að bjóða upp á sama æfingamagn hjá báðum kynjum.

Hvernig getur félagið unnið að jafnrétti kynja?

Árangursrík aðferð til að koma á jafnrétti kynja er að ryðja sér til rúms víða um heim. Þessi aðferð hefur verið nefnd „Samþætting jafnréttismála“. Samþætting getur verið íþróttahreyfingunni mikilvægt tæki til að jafna stöðu kynjanna. Slíkt má gera með því að taka tillit til og miða tilboð og þjónustu við þarfir iðkenda af báðum kynjum. Aðferðin byggist á því að samþætta sjónarhorn kynferðis inn í allt starf. Í því felst að í stað þess að líta á jafnréttismál sem sérstakan afmarkaðan málaflokk er markmiðið að samtvinna þau alri stefnumörkun og aðgerðum. Jafnréttisvinna verður þannig eðlilegur hluti allra sem starfa að stjórnsýslu, s.s. þjálfun og rekstri íþróttafélaga. Kynferði er tekið á skipulagðan hátt með í reikninginn við alla ákvarðanatöku, hvort sem um er að ræða stórar eða litlar ákvarðanir. Forsendur slíkra samþættingar eru einkum eftirfarandi:

Vilji og ábyrgð:  Vilji til að vinna að jafnrétti kynjanna þarf að vera meðal stjórnenda íþróttafélaga. Jafnframt þarf að vera skýrt hver ber ábyrgð á framkvæmdinni. Þeir aðilar sem hafa vald til ákvarðana og framkvæmda eru í lykilstöðu til að ná fram árangri í jafnréttismálum.

Kyngreindar upplýsingar:  Nauðsynlegt er að safna upplýsingum um aðstæður og möguleika kynjanna innan íþróttafélaga. Á grundvelli þeirra upplýsinga eru teknar ákvarðanir um hverju þarf að breyta unnan íþróttafélaga til að raunverulegu jafnrétti verði náð.

Fræðsla um jafnréttismál:  Fræðsla um jafnréttismál er nauðsynleg til að samþætting beri árangur. Ekki er hægt að krefjast ábyrgðar á samþættingu jafnréttissjónarmiða af fólki sem ekki hefur nægileg þekkingu.  

Haukar reyna að vinna samkvæmt ofangreindu eftir bestu getu.

Jafnrétti kynþátta

Knattspyrnufélagið Haukar leggur áherslu heiðarlegan leik, að útrýma fordómum úr íþróttum, þ. á m. knattspyrnu, og koma í veg fyrir einelti.

Fordómar eru þegar einhver er áreittur, útilokaður, sniðgengin(n) eða mismunað vegna útlits, uppruna, kynþáttar, litarháttar, kynferðis, kynhneigðar, skoðana, trúar, fötlunar, efnahags eða annarra aðstæðna. Það er því miður staðreynd að á Íslandi verða einstaklingar fyrir fordómum og aðkasti m.a. vegna uppruna síns. Öll þurfum við að leggja okkar af mörkum til að koma í veg fyrir fordóma í íþróttum, þ. á m. í knattspyrnu hvort sem um er að ræða félög, þjálfara, leikmenn, áhorfendur eða aðstandendur. Með samstilltu átaki getum við áorkað miklu og sparkað fordómum út úr íþróttum, þ.á m. knattspyrnu.

Einelti er að ofsækja einhvern með endurtekinni stríðni, illkvittnum uppnefnum, ógnandi, árásargjarnri framkomu og útilokun frá félagsskap.  Oft er erfitt að greina einelti en það birtist í flestum hópum í okkar samfélagi. Eineltið birtist t.d. oft í þeirri mynd að einhver er skilin(n) eftir útundan. Einelti veldur jafnan miklum kvíða hjá viðkomandi og vanlíðan. Öll þekkjum við einhvern einstakling sem hefur verið strítt mikið en hefurðu hugsað hvernig þér myndi líða í hans sporum? Einelti er eitthvað sem við viljum alls ekki sjá í knattspyrnunni frekar en annars staðar.

Eftirtalin atriði skulu höfð að leiðarljósi:

  • Leikmenn leiki íþróttir án alvarlegra leikbrota og án rifrilda við dómara.
  • Þjálfarar hvetji leikmenn sína til að leika heiðarlega og reyni ekki á þolinmæði dómarans. Þjálfarar eru fyrirmyndir leikmanna.
  • Áhorfendur njóti leiksins, hvetji leikmenn sína áfram og sameinist um að útiloka öll niðrandi ummæli til leikmanna og dómara inni á vellinum.
  • Forráðamenn félaga sinni starfi sínu af ábyrgð og heiðarleika.
  • Foreldrar og forráðamenn barna hvetji þau til að leika heiðarlega, styðji við bakið þeim í viðkomandi íþrótt, þ. á m. knattspyrnu, mæti á leiki og sýni stuðning við allt liðið og sleppi öllum niðrandi ummælum um leikmenn og dómara.
  • Fjölmiðlar ýti undir heiðarlegan leik með jákvæðri umfjöllun.