Hvaleyrarskólavöllurinn tekinn í gegn

Völlurinn eins og hann leit út fyrir breytingu./flickmylife.com

Það var vaskur hópur körfuknattleiksunnenda sem saman voru komnir við körfuboltavöllinn við Hvaleyrarskóla síðustu tvö kvöld og ástæðan endurröðun Sport court vallarins sem þar er. Meistaraflokksráð karla fékk veður af því að völlurinn væri í lamasessi og smalaði mönnum saman til að fara í endurbætur á honum og tók það tvær kvöldstundir að koma honum í samt lag.

Síðasta vetur var völlurinn tekinn upp og bjargað í hús en flísar voru farnar að fjúka upp í einu af verstu veðrunum sem skall á í vetur. Völlurinn var svo lagður niður í byrjun júlí en eitthvað hefur það vafist fyrir þeim sem völlinn lögðu hvernig línurnar á honum ættu að liggja og kannski ekki skrítið því þetta er mikið púsluspil.

„Við vorum ekki lengi að bregðast við þegar að við sáum ástand vallarins á netinu,“ sagði einn stjórnarmanna og vitnaði þar í heimasíðuna flickmylife.com en þar kom mynd af vellinum með yfirskriftina „Körfuboltavöllur dagsins“.

„Þetta eru flottir vellir og þurfa að vera í lagi. Það eru tveir svona vellir hérna í Hafnarfirði og nauðsynlegt að þeir nothæfir, sérstaklega yfir sumartímann,“ hélt stjórnarmaðurinn áfram og sagði jafnframt að því miður þá væri umgengnin, þá sérstaklega við Setbergsskóla völlinn, als ekki til fyrirmyndar.

Einn þeirra sem komu til við aðstoðina var Stefán Þór Borgþórsson mótastjóri KKÍ. „Sem Hafnfirðingur og körfuboltaunnandi þá sá ég mig knúinn til að koma og aðstoða Haukana í þessu verkefni,“ sagði Stefán og sagði jafnframt að þetta hafi reynt á púsl hæfileikana.

„Við vorum búnir að vera í góðan klukkutíma að leita af einni flís til að fá þriggja stiga línuna í rétt horf á þriðjudaginn en hún var bara ekki að finnast. Við mættum svo í gærkvöldi og hún fannst á fimm mínútum, það lýsir kannski hversu línublindur maður var orðinn,“ sagði Stefán jafnframt sposkur á svip.

Völlurinn er nú kominn í samt lag og því um að gera að skella sér út í körfu.


Það voru mikil átök í gangi og blóð og svita úthelt


Loksins loksins fannst flísin sem búið var að leita að mjög lengi