Hvað segja Freyr, Arnar og Kári ? FH – Haukar í kvöld

HaukarNú er komið að síðustu umfjöllun okkar fyrir stórleik N1-deildarinnar. Leikur sem flest allir Hafnfirðingar og handbolta áhugamenn hafa beðið eftir, FH – Haukar. Leikurinn fer fram í kvöld klukkan 19:30 í Kaplakrika. Miðaverð er 1000 krónur fyrir fullorðna en frítt er fyrir 16 ára og yngri.

Mikið hefur verið ritað um leikinn hér á síðunni, tekið var viðtal við Einar Örn Jónsson, blaðamenn landsins spáðu fyrir um leikinn og farið var aftur í tímann og ritað um leiki Hauka og FH síðan árið 1998.

Í dag munum við fá þá Arnar Jón Agnarsson, Frey Brynjarsson og línumanninn Kára Kristján Kristjánsson til að tjá sig og segja okkur hvernig stemmingin er í hópnum, nú rétt fyrir leik.

 

Við spurðum Arnar Jón fyrstann að því hvernig stemmingin í hópnum væri og hvort að leikmennirnir væri tilbúnir í slaginn ?
Þetta er rosalega skemmtilegt, þetta verður alveg rosalegur leikur, sérstaklega skemmtilegt að spila við FH núna þar sem þeir eru búnir að standa sig rosalega vel í vetur. Ég spái reyndar að þessi leikur verði endurtekning á leiknum fyrr í haust á Hafnafjarðarmótinu, man reyndar ekki hvernig hann endaði en sigur okkar var allavega afgerandi,“ sagði Arnar Jón kokhraustur en sigur Hauka á FH var í kringum 15 mörk.

 

Við spurðum Frey að því sama „ Stemmningin er góð og það er bara tilhlökkun að taka þátt í svona nágrannaslag.“ Næst spurðum við hann aðeins út í FH-liðið, FH-ingar hafa verið mjög öflugir og stöðugir það sem af er en við höfum ekki náð okkur á strik í deildinni. Þetta verður án efa hörkuleikur og við ætlum að selja okkur dýrt í þessum leik það er alveg klárt.“

 Það er greinilegt að allir leikmennirnir þrír eru staðráðnir í að sigurinn verða Haukamegin, en Kári Kristján segir að Haukaliðið þurfi enga móteveringu fyrir þennan leik „Það þarf enga móteveringu fyrir þessa leiki, strákarnir í hvítu treyjunum sjá um það. Við ætlum okkur að keyra allt í botn og ná fram okkar besta leik. Þegar við erum komnir í okkar gír er algjör óþarfi að spyrja um úrslit,“ sagði Kári Kristján og hann hélt áfram „það eru allir 100% fyrir þennan leik og verð ég sár og svekktur ef að Haukafólk fjölmennir ekki á völlinn. Stundum verður maður bara að pína sig í Kaplakrika,“ sagði Kári og vill hann að Haukafólk fjölmenni á völlinn og taki alla fjölskylduna meðlimana og vini með sér.

Við spurðum Kára næst að því hvort að hann finni fyrir spennunni og stemmingunni sem er fyrir þessum leik í bænum? „Ég er ekki ennþá búin að finna fyrir henni, fyrir mér er þetta bara leikur sem er fyrir 2 stigum og þegar maður veit að fimleikafélagið er mótherjinn þá kemur bara blóð á tennurnar,“ sagði eyjapeyjinn.

Fimleikafélagið eins og Kári vill kalla það er á toppi deildarinnar ásamt Akureyri og Val, kemur honum það eitthvað á óvart? „Akureyri og fimleikafélagið hafa komið á óvart, en valur eru alltaf sterkir það er bara einhvernveginn alltaf svoleiðis.“

Nú eru þið ríkjandi Íslandsmeistarar, með topplið á meðan fimleikafélagið er að koma upp í N1-deildina eftir að hafa leikið í 1.deildinni, þið hljótið að teljast vera líklegra liðið og pressan er á ykkur ekki satt? „Ég finn ekki fyrir neinni pressu. Þeir eru með 13 ára meðalaldur í liðinu og reikna ég með því að þeir eigi eftir að verða yfirspenntir. Við erum með reynt lið sem hefur spilað lengi saman og ég verð þá bara að éta þessar yfirlýsingar ofan í mig ef við náum ekki tveim stigum en ég tel það fráleitt að það gerist,“ sagði Kári Kristján og viðurkenndi að þetta væru stór orð „…enda þarf alvöru slummur fyrir svona leik,“ sagði hann.

Eins og flestir vita hafa Kári Kristján og Arnar Pétursson verið að glíma við nára meiðsli að undanförnu og ekki getað tekið virkan þátt á æfingum og í leikjum að undanförnu en skyldu þeir Eyjapeyjarnir vera tilbúnir í einvígið um Fjörðinn ? „Alveg 100% tilbúnir. Elli sjúkró (Elís Þór Rafnsson sjúkraþjálfari) er kraftaverkamaður og hefur náð að láta kripplinga á borð við Halldór Ingólfs. spila til fertugs þannig að þetta var bara kökusneið fyrir hann,“ sagði Kári Kristján að lokum.

Nú er bara að gíra sig upp, dagurinn er runninn upp, leikurinn um Fjörðinn er í kvöld.