Enn höldum við áfram að fjalla um Hafnarfjarðarslaginn sem fram fer á morgun, miðvikudag. Við erum að tala um leik FH og Hauka í N1-deild karla sem fer fram á morgun í Kaplakrika klukkan 19:30.
Í dag munum við fá nokkra blaðamenn landsins til að tjá sig um leikinn en oftar en ekki hafa þeir mikið að segja.
Við fengum þá, Ívar Benediktsson blaðamann á Morgunblaðinu, Tómas Þór Þórðarsson blaðamann á DV, Henry Brigi Gunnarsson blaðamann á Fréttablaðinu og Elvar Geir Magnússon blaðamann á Vísi til að tjá sig um komandi leik.
Ívar Benediktsson hafi þetta að segja; „FH-liðið hefur komið sem ferskur blær inn í N1 deildina í haust og í vetur með stórum hópi ungra og afar efnilegra handknattleiksmanna. Haukarnir hafa á sama tíma verið afar brottgengir. Þeir hafa leikið fína leika bæði í deildinni og í meistaradeild Evrópu en á milli dottið niður úr öllu valdi í fáeinum leikjum N1 deildarinnar. Alveg er ljóst að bæði lið munu leggja allt í sölurnar í þessu fyrsta alvöru uppgjöri Hafnarfjarðarliðanna um nokkurra ára skeið. Vonandi verður fullt hús í Kaplakrika á leiknum þannig að það skapist hin rétta stemning eins menn muna frá uppgjörum þessara liða í fyrri tíð, ekki hvað síst þegar íþróttahúsið við Strandgötu var þéttpakkað.
FH og Haukar áttust við í Afmælismóti Hafnarfjarðarbæjar í haust og þá höfðu Haukar betur. Síðan þá hefur talsvert vatn runnið til sjávar og því ætla ég að veðja á að stráklingarnir hans Elvars merji nauman sigur að þessu sinni í leik.“
Henry Birgir Gunnarsson; „Ég á von á spennandi og jöfnum leik. Haukarnir hafa verið að gefa eftir í deildinni síðustu misserin á meðan FH-liðið hefur verið að gera fína hluti og geislar af sjálfstrausti. Haukarnir munu þó koma til baka. Ég verð illa svekktur ef þetta verður ekki alvöru grannaslagur þar sem hart verður tekist á, vonandi í stúkunni líka. Ætla að spá því að leiknum lykti með jafntefli, 23-23.”
Tómas Þór Þórðarsson; „Þetta verður frábær leikur og tími til kominn að „alvöru“ Hafnafjarðarslagur sé á dagskránni. Það er gjörsamlega allt sem mælir með þessum leik. FH-ingar hafa komið manna mest á óvart og koma inn í leikinn á miðvikudaginn sem topplið deildarinnar. Á sama tíma sitja Íslandsmeistarar Haukar í 6. sæti þó stigamunurinn sé ekki mikill. Tvö stig.
Í FH-liðinu eru uppaldir strákar sem hafa alist upp við að hata Hauka og ætla sér ekkert nema sigur. Hjá Haukum er Aron Kristjánsson við stjórnvölin sem kannast vel við Hafnarfjarðarslaginn og leggur eflaust mikið upp úr því að vinna þennan leik. Þá má ekki gleyma heimalingnum í Haukaliðinu, Sigurbergi Sveinssyni, sem mun ekki vilja láta Aroni Pálmarssyni eftir fyrirsagnirnar.
Persónulega býst ég við frábærum leik og stemningin í húsinu mun eflaust minna á gamla tíma. Þetta er leikur sem enginn handboltaunnandi má láta framhjá sér fara. Það er ekkert flóknara.“
Elvar Geir Magnússon; „Þetta verður klárlega hörkuleikur, á því liggur enginn vafi. Hið unga lið FH hefur verið mikið í umræðunni enda einstaklega spennandi og skemmtilegt lið en þeir fá engin vettlingatök frá Haukum. Það er mjög erfitt að spá fyrir um úrslitin og ég held að spennustigið í húsinu verði hátt alveg þar til lokaflautan gellur. En ég ætla þó að spá því að Haukar muni keyra með tvö stig í hinn hluta Hafnarfjarðar.“
Sjá einnig:
Aðeins einn FH sigur á tíu árum
Á morgun munu svo leikmenn meistaraflokks Hauka láta í sér heyra hér á síðunni það verður að vanda spennandi lestursefni. Við munum svo láta í okkur heyra á morgun, klukkan 19:30 í Kaplakrika.