Nú er komið að því að varafyrirliði meistaraflokks Hauka, Hilmar Trausti Arnarsson tjái sig við stuðningsmenn, enda tveir dagar í mót og ekki seinna vænna. Flautað verður til leiks í Pepsi-deildinni á morgun þegar Valur – FH mætast á Vodafone-vellinum. Vellinum sem við munum kalla heimavöll okkar í sumar.
En á þriðjudaginn er svo dagur daganna. Þegar sjö mánaða bið verður loks á enda. Liðið okkar mun spila í deild þeirra bestu eftir alltof langa bið.
En hvað segir varafyrirliðinn?
Nú eru þið komnir frá Portúgal, hvernig var sú ferð?
Ferðin í heild sinni var skemmtun út í gegn. Þó svo að sólin hafi ekkert verið að láta sjá sig alltof mikið þá létum við það ekkert á okkur fá. Spiluðum fótbolta á grasi við bestu aðstæður svo það er ekki yfir neinu að kvarta. Lykilatriði að brjóta æfingatímabilið upp með svona ferð sem gerir ekkert nema gott fyrir hópinn og þéttir honum enn betur saman.
Var eitthvað sem stóð uppúr í ferðinni?
Sólarleysið og svo hversu litla samkeppni ég fékk um Tantitilinn, ekki að ég hafi búst við mikill keppni um hann.
Hvernig var liðið að spila í þeim æfingaleikjum sem spilaðir voru í Portúgal, gegn Val og FH?
Liðið var að spila vel ef á heildina er litið. Öllum var leyft að spila en mér fannst leikmenn vera að reyna að fara eftir því sem sett var upp fyrir leikina. Þetta er allt á réttri leið og það verður búið að fínpússa þá hluti sem þarf að laga fyrir mót.
Ef þú lítur til baka, þegar Haukar féllu úr 1.deildinni árið 2006 og þú ákvaðst að fara til Keflavíkur. Er það ekki fremur ótrúlegt að einungis þremur og hálfu ári seinna ert þú varafyrirliði Hauka og á leiðinni að fara spila með Haukum í Pepsi-deildinni?
Ég hef nú ekkert pælt í því en þegar ég hugsa um það þá er það frekar ótrúlegt. Það var ekkert sem benti til þess haustið 2006 að Haukarnir yrðu með lið í efstu deild árið 2010. En hlutirnir eru fljótir að breytast í boltanum svo klúbburinn verður að halda sér á tánum til þess að halda sér í fremstu röð þar sem félagið á heima sama á hvaða íþróttagrein er litið.
Hvað telur þú að hafi breyst frá þeim tíma hjá félaginu?
Það er svo margt að ég veit ekki hvar á að byrja. En stærsti munurinn sem ég finn frá því að félagið var að strögla ár eftir ár í 1.deildinni og féll svo að lokum er hugarfarið. Þó svo að ég hafi ekki tekið þátt í því sjálfur þá held ég að liðið hafi haft gott af því að fara eitt ár í 2.deildina þar sem liðið vann flesta sína leiki. Ég veit að Andri þjálfari hefur lagt gríðarlega áherslu á að frá því að hann byrjaði með liðið að það á ekkert að vera að tala um fortíðina áður en hann tók liðinu, heldur það sem hefur gerst á þeim tíma síðan hann tók við. Nýtt upphaf með sigurhugarfari. Síðan ég kom í liðið aftur sumarið 2008 þá hef ég ekki stigið inn á völlinn í einhverjum vafa um að Haukar geti unnið andstæðing sinn sama hvaða lið það er hverju sinni. Svo fer umgjörðin um liðið alltaf batnandi og þeir einstaklingar sem sinna því eiga hrós skilið.
Hvernig er standið á liðinu, innan við mánuð í mót. Eru allir komnir í topp form og allir tilbúnir í baráttuna sem framundan er?
Formið á liðinu er mjög gott heilt yfir. Ef menn hafa lagt sig fram og gert það sem fyrir þá var lagt á æfingum vetrarins þá ættu allir að vera í mjög góðu standi. Það verða allir tilbúnir þegar mótið byrjar ég hef engar áhyggjur af öðru.
Nú hefur þú verið iðinn við kolann í vetur, varstu að kaupa þér nýja skó, eða hvað er þetta sem gerir það að verkum að þú ert farinn að skora meira en áður?
Held að ástæðan sé sú að það er búið að færa mig aftar á völlinn þannig að ég vanda mig enn betur en ég gerði áður þegar ég fæ séns á að munda fallbyssuna. Nei svona af öllu gamni slepptu þá hef ég ekki hugmynd um hver ástæðan er. Ætli það sé ekki bara að skila sér að maður er búinn að leggja mikið á sig í allan vetur við erfiðar æfingar. Það er ekki leiðinlegt að uppskera í fleiri mörkum.
Hverjir verða styrkleikar Hauka í sumar?
Samheldni númer eitt, tvö og þrjú. Við erum kannski ekki með bestu einstaklingana í deildinni en ef við vinnum saman sem lið og erum tilbúnir að deyja inni á vellinum fyrir hvorn annan þá er ekkert lið í deildinni með betri liðsheild en Haukarnir. Mætum fullir sjálfstrausts til leiks og leggjum okkur allir 100% fram í alla leiki þá getur ekki orðið annað ef gaman af þessu sumri.
Hvað er það sem liðið verður að varast í sumar?
Það er ekkert sem ber að varast. Helst okkur sjálfa það er að við mætum ekki fullkomlega einbeittir til leiks. Um leið og við missum hausinn þá getum við ekki neitt. Við vitum það best sjálfir og það sýndi sig í einstaka leikjum seinasta sumar.
Hvernig lýst þér á byrjunina á tímabilinu? Fyrstu tveir leikirnir gegn tveimur stærstu knattspyrnufélögum landsins, KR og FH?
Allt frá því að ég sá töfluröðunina þá hefur mér litist mjög vel á þessa byrjun. Allir leikir eru stórleikir fyrir okkur í þessari deild og það verður bara gaman að fara í Frostaskjólið og fá svo Fimleikafélagið í heimsókn. Ekkert annað en tilhlökkun fyrir þeim leikjum. Allt erfiðið sem við lögðum á okkur bæði á undirbúningstímabilinu í fyrra og svo tímabilinu sjálfu var einmitt til þess að komast upp um deild og fá að spila leiki sem þessa.
Og að lokum, býst þú við því sem varafyrirliði að leiða þitt lið oft út á völlinn, þar sem fyrirliði liðsins er kannski kominn til áranna í fótboltanum þurfi jafnvel einhverja leiki til að hvíla sig í sumar?
Nei ég geri fastlega ráð fyrir því að Hulk spili alla leikina í sumar. Er búinn að vera að lyfta með honum í allan vetur og hann hefur sjaldan eða aldrei verið í betra formi. En ef sú staða kemur upp að hann spili af einhverjum ástæðum ekki einhvern/einhverja leiki þá kem ég til með að gera það. Gerði það í nokkra leiki seinasta sumar og þess má til gamans geta að liðið tapaði ekki leik þegar ég var með bandið.
Við þökkum þriðja Hilmar-arnum í liðinu fyrir þetta. Og nú eftir þetta viðtal er ennþá styttra í að mótið hefst. Við minnum svo að sjálfsögðu alla Haukara að mæta í RAUÐU í Frostaskjólið.