Hvað segir Kári Kristján ? – Valur – Haukar á morgun

Á morgun leikur meistaraflokkur karla í handknattleik við Val í Vodafone-höllinni í N1-deild karla. Leikurinn hefst klukkan 19:30.

Við fengum línumanninn Kára Kristján Kristjánsson í stutt spjall, spurðum hann aðeins út í leikinn í Þýskalandi og svo auðvitað um leikinn á morgun.

 Kári Kristján er nú á sínu fjórða ári með Haukum en hann er í feykilega góðu formi þessa dagana og skoraði til að mynda ófá mörkin gegn Flensburg um síðustu helgi.

 Við spurðum Kára fyrst að því hvernig hefði verið að spila gegn Flensburg í Þýskalandi fyrir troðfullri höll ? „ Það var alveg meiriháttar, frábært að spila fyrir framan fulla höll af handboltaáhugamönnum. umgjörðin var geggjuð og gaman að sjá líka Haukafólkið sem fylgdi okkur.“

En hvernig hefur undirbúningurinn verið fyrir leikinn gegn Val, er Meistaradeildin t.d. ekkert að trufla ykkur ? „ Þetta er náttúrulega bullandi keyrsla núna hjá okkur samhliða Champions league erum við alltaf að spila einn deildarleik í viku. Þannig að tveir leikir í viku í tvo mánuði er krefjandi en mjög skemmtilegt. Þannig að eftir hvern CL-leik verðum við bara að koma okkur í annað verkefni og hreinsa hugann. En annars á skrokkurinn á mönnum alveg að fúnkera 100%, vonandi “

 En hvernig leik býst Kári við á morgun ? „ Þetta verður bara týpískur Haukar-Valur. Úrslitin ráðast á síðustu 5 mín. mikil harkaog massa barátta.“

Haukar töpuðu síðasta deildarleik gegn HK í Digranesi, væri það ekki mikil vonbrigði að tapa öðrum deildarleiknum í röð ? „ Ég spái ekki í því , því það er bara ekki að fara gerast.“

 Við spurðum Kára Kristján næst að því hvernig honum hefur fundist N1-deildin hafa farið af stað „ Deildin hefur farið frábærlega af stað. fólk að mæta í kassavís á leikina og félögin að standa sig rosalega vel. eitt er ég ósáttur með og það er þátttaka fjölmiðla. byrjað að sýna allt of seint frá mótinu að mínu mati. Það var enginn umfjöllun fyrir mót og svo er meistaradeildinni ekki einu sinni synnt að fullu. hver getur sagt mér að það sé ekki rugl að hafa ekki sýnt okkur spila við eitt af 10 bestu liðunum í heiminum í beinni útsendingu virkilega illa að verki staðið þar. Það væri nú líka ágætt að fá eitt samantektar kvöld í viku frá handboltanum sem er lengur en 12 mínútur, en ekki bara sýnt frá leikjunum í hálfleik þegar er verið að sýna aðra leiki. Það er enginn sjarmi í því og betra að geta dreift þessu yfir vikuna. “

Við spurðum svo Kára að lokum að því hvort að hann hafi eitthverntímann verið í betra formi en um þessar mundir ? „Nei, þetta er klárlega mitt besta form. Ég ætla hinsvegar að bæta aðeins við úthaldið og þá er ég sáttur í bili.“

Við þökkum Kára Kristján kærlega fyrir þetta og vonum eins og fyrri daginn að hann og liðsfélagar hans nái að næla sér í öll stigin sem í boði eru í Vodafone-höllinni á morgun.