Á morgun, sunnudag, á Ásvöllum klukkan 16:00 mætir meistaraflokkur karla hjá Haukum, liði ZTR Zaporozhye frá Úkraníu í riðlakeppni Meistaradeildarinnar 2008/2009.
Við fengum Freyr Brynjarsson leikmann Hauka til að svara nokkrum vel útvöldum spurningum út í leikinn, möguleikana og byrjunina hjá Haukum á tímabilinu.
Hvernig er stemmingin í hópnum fyrir leikinn í Meistaradeildinni? „Það er góð stemmning í hópnum og mikil tilhlökkun hjá okkur strákunum, sérstaklega eru þeir spenntir sem eru að fara spila sinn fyrsta Meistaradeildarleik. Menn verða tilbúnir að leggja allt í sölunar í þessum leik á sunnudaginn.“
Voru það vonbrigði að tapa gegn HK í síðasta leik? „Já það voru ákveðin vonbrigði en þó engin heimsendir. Við vorum ragir í sóknarleiknum sem varð okkur að falli. Við verðum að koma betur einbeittir í leikina okkar og það er ljóst að það er eitthvað sem vantaði í leiknum gegn HK. Þetta verður mikil barátta milli okkar,HK, Vals og Fram og því mikilvægt að vinna þessi lið.“
Ertu ánægður með spilamennsku þína, hingað til? „Ég er svona þokkalega sáttur. Leikurinn á miðvikudaginn var mjög lélegur hjá mér ásamt liðinu í heild. En í fyrstu tveimur leikjunum fann ég mig mjög vel og er mjög sáttur að við séum búnir að koma 5-1 vörninni inn. Við þurfum að hafa fleiri varnarafbrigði sérstaklega þegar við spilum í Meistaradeildinni.“
Hvað veistu um úkraníska liðið? „Þetta lið ZTR Zaporozhye lenti í 3.sæti í sínum riðli í Meistaradeildinni í fyrra og vann t.a.m. Viborg á heimavelli með 12 mörkum en tapaði fyrir þeim á útivelli með 6. Þeir eru stórir og nokkuð þungir. Skorið hjá þeim er yfirleitt ekki hátt og því mikilvægt að við séum agaðir í sóknarleiknum okkar og nýtum opnu færin vel gegn þeim. Þeir geta spilað bæði 6-0 og 5-1 vörn en eru ekki mikið hraðupphlaups lið. Þetta er mjög sterkt lið en við ætlum að spila til sigurs og því mikilvægt að fágóðan stuðning áhorfenda.“
Hvernig finnst þér byrjunin á tímabilinu hafa verið, bæði hjá Haukum og hjá liðunum í deildinni? „Byrjunin hjá okkur hefur verið allt í lagi. 4 stig af 6 mögulegum er það sama og við vorum með á sama tíma í fyrra en við verðum að leggja harða að okkur til að ná fram þeim árangri sem við náðum í fyrra. Hin liðin í deildinni eru að byrja eins og ég bjóst við þó svo að Fram hafi komið svolítið á óvart. Ég tel að ásamt okkur verða HK, Valur og Fram að berjast um efstu 4 sætin. FH-ingar eru með skemmtilegt lið og geta stolið stigum á móti öllum liðum. Akureyri hefur á að skipa fínum mannskap og verða án efa erfiðir heim að sækja. Stjarnan er virðast vera seinir í gang en þeir verða án efa erfiðir viðureignar þegar á líður. Víkingarnir eru með ungt lið og þurfa að sanna sig í hverjum leik, þannig að fer engin með örugg stig frá þeim. Í heildina tel ég að deildinn sé mun jafnari en hún hefur verið undanfarin ár og það verður spennandi að sjá hvernig þetta þróast.“
Eitthver lokaorð sem Freyr Brynjarsson vill segja við Haukafólk? „Ég vil bara þakka þessu frábæra fóki sem mætir á hvern einasta leik hjá okkur og stendur með okkur gegnum þykk og þunnt. Ég vona að haukafólk ásamt handboltaáhugafólki láti sjá sig á sunnudaginn og sjái okkur spila gegn sterku liði frá Úkraníu.
Áfram Haukar.“
Við þökkum Frey kærlega fyrir og vonum að hann og liðsfélagar hans far með sigur af hólmi á morgun. Einnig tökum við undir orð hans og vonum að bæði Haukafólk og handboltaáhugafólk láti sjá sig á morgun.