Hvað segir Einar Örn ? FH – Haukar á miðvikudag

HaukarÁfram höldum við að fjalla um stórleikinn á miðvikudaginn. „Einvígið um Fjörðinn“. En fyrir þá sem ekki eru alveg að kveikja, þá erum við að tala um leik Hauka og FH í N1-deild karla sem fram fer í Kaplakrika á miðvikudaginn klukkan 19:30.

Við fengum hægri hornamanninn, Einar Örn Jónsson í smá viðtal en Einar Örn kom til Hauka fyrir tímabilið eftir margra ára atvinnumennsku. 

N1-deild karla hefur verið í frí-i vegna landsleikja og því rúmlega vika síðan Haukar spiluðu síðast í deildinni en þá sigruðu þeir lið Víkings nokkuð örugglega. 

Við spurðum því Einar Örn að því hvort það hafi ekki verið fínt að fá smá hvíld eftir mikla leikjatörn bæði í N1-deildinni og í Meistaradeildinni ?

„ Jú, það var gott að fá smá pásu, bæði til að endurnýja kraftana eftir mikla törn og til að ná aftur áttum fyrir komandi mánuð sem verður ennþá strembnari en síðustu mánuðir.“

Á miðvikudaginn verður Hafnarfjarðarslagur, leikur sem sumir vilja kalla „Einvígið um Fjörðinn“ er ekki komin tilhlökkun í leikmannahópinn ? „Jú, óneitanlega. Það er komið svolítið síðan það hefur verið alvöru Hafnarfjarðarslagur og þetta verður áreiðanlega hörkuslagur. Það verður vonandi fullt á leiknum og mikil stemming og maður finnur hvernig spennan magnast hægt og róleg fram að leik og það smitast inn í hópinn og hækkar spennustigið á leikmönnum.“ 

Fyrir tímabilið mættust Haukar og FH í Hafnarfjarðarmótinu svokallaða. Þar fóru Haukamenn með nokkuð léttan sigur af hólmi, er eitthvað hægt að taka mark af þeim leik nú ? „Já og nei. Það var klassískur undirbúningsleikur og sem slíkur hefur hann lítið spágildi fyrir miðvikudaginn. Hinsvegar sýndum við margar sparihliðar í þeim leik og sýndum hvað við erum færirum að gera á góðum degi.“

Nú hafa FH-ingar komið mörgum á óvart, komnir með 8 stig og eru efstir í deildinni ásamt Val og Akureyri, hvernig sér Einar Örn þetta ævintýri þeirra enda, er þetta eitthver blaðra sem mun svo springja ? „FH-liðið er mjög skemmtilega spilandi lið og þeir hafa farið langt á gleðinni og preysuleysinu. Það var svosem ekki búist við þessu fyrir tímabilið og það er alltaf þægilegt að spila þegar ástandið er svoleiðis. Núna munu hinsvegar aukast væntingarnar til þeirra og þá breytast allar forsendur fyrir leiki og pressan á leikmenn eykst. Það á alveg eftir að koma í ljós hvernig þessir ungu strákar höndla það.“

Eins og fyrr segir var Einar Örn að koma heim eftir mörg ár í atvinnumennskunni, hvernig finnst honum deildin hafa verið að spilast og hefur eitthvað komið honum á óvart í deildinni ? „Nei í rauninni ekki. Það var alveg fyrirséð að deildin í ár yrði jöfn og spennandi. Mörg lið styrktu sig vel og allir geta unnið alla í augnablikinu. Það getur hinsvegar ferið fljótt að breytast þegar meiðsli fara að herja á liðinog öll lið verða búin að finna taktinn, til dæmis þegar við finnum okkar „rytma“ í deildinni og Valsmenn fá allan sína menn til baka úr meiðslum o.s.frv.“

Að lokum spurðum við Einar að því hvernig væri ástandið á hópnum, hvort að um eitthver meiðsli væri um að ræða í hópnum ? „Arnar Pétursson og Kári Kristján Kristjánsson hafa verið meiddir síðustu vikur og eru að ná sér af því. Þeir hafa báðir verið í nárameiðslum sem eru snúin og getur tekið langann tíma að ná sér fullgóðum af. Þetta virðist leggjast á þessa Eyjamenn í liðinu okkar, ég man t.d. ekki eftir því að neinn annar en Eyjamennirnir hafa meiðst í vetur,“ sagði Einar Örn Jónsson að lokum.

Við munum fjalla meira um leikinn þangað til að honum kemur, en við hvetjum Haukafólk enn og aftur að fjölmenna á leikinn, taka alla fjölskylduna með og hvetja Haukastrákana áfram.