Miðjumaðurinn nautsterki, Andri Steinn Birgisson sem gekk til liðs við Hauka fyrr á þessu ári lék sínu fyrstu mínútur fyrir Hauka í 1.deildinni, í 1-0 sigurleiknum gegn Fjölni í síðustu umferð.
Hann hefur verið að glíma við meiðsli undanfarnar vikur en virðist nú vera búinn að finna leið í gegnum þau, með hjálp Rúnars Pálmarssonar sjúkraþjálfara Hauka og eins besta sjúkraþjálfara landsins.
Við fengum Andri Stein til að svara nokkrum spurningum fyrir lesendur Haukar.is. Næsti leikur Hauka er á Ólafsfirði á laugardaginn gegn KF. Hefst sá leikur klukkan 16:00. Næsti heimaleikur Hauka er gegn KA 14. júní klukkan 19:15.
Til hamingju með fyrsta mótsleikinn fyrir Hauka, hvernig var tilfinningin að spila knattspyrnu eftir meiðslin að undanförnu?
– Takk fyrir það, hún var virkilega góð þrátt fyrir að þetta voru ekki margar mínútur. Það er alltaf gott að vera kominn af stað aftur.
Nú gekkst þú til liðs við Hauka í vetur, hvernig hefur þér líkað í Haukum?
– Mér líkar einstaklega vel í Haukum en það er ekki erfitt þar sem þetta lið er samansafn af algjörum fagmönum.
Nú var viðtal við þig á Fótbolti.net fyrir stuttu um meiðsli þín, hver er staðan á þeim málum hjá þér akkúrat núna?
– Staðan á meiðslunum núna er voðalega svipuð. Ég er með beinmar og svo var eitthvað smotterí með liðböndin líka. En eftir að meistarinn hann Rúnar sjúkraþjálfari las úr myndunum þá var mér tjáð að ég gæti ekki skemmt neitt en að það yrði ekkert þægilegt að spila svona. Þá er ekkert annað en að bíta á jaxlinn og æfa bara og hefur það gengið framar vonum. Ég hef æft núna í 10 daga c.a. og gengið bara nokkuð vel. Reyndar svo vel að ég hef verið í sigurliði á öllum æfingum. Spurning hvað menn eins og King Geiri, og Hilmararnir hafa verið að gera á meðan ég var meiddur?
Hvernig líst þér á tímabilið sem er nú komið af stað?
– Mér líst mjög á það og eftir að hafa horft á strákana úr stúkunni þá eiga þeir hrós skilið fyrir þessi níu stig sem safnast hafa. En núna get ég bara ekki beðið eftir að komast inn á völlinn með þeim og hjálpa til við að gera það sem við ætlum okkur að gera og það er að fara upp í Pepsi.
Hvaða lið sérðu fyrir þér í baráttunni um sæti í Pepsi-deildinni?
– Ég sé okkur að sjálfsögðu þar ásamt Grindavík og KA.