Haukastelpurnar fóru með öruggan sigur af hólmi í Hafnarfjarðarslagnum 35-19 en leiknum var að ljúka.
Bæði lið eru á svipuðu róli í deildinni og var því búist við jöfnum leik en sú varð ekki raunin. Eftir jafnan fyrri hálfleik gáfu Haukastelpur í, í seinni hálfleik.
Heimaliðið fór betur af stað og komst í 4-0 en þá vöknuðu þær svarthvítu af værum blundi og jöfnuðu 4-4. Þá tók Díana Guðjónsdóttir þjálfari Hauka leikhlé og var jafnræði með liðunum allt þar til undir lok fyrri hálfleiks þegar Haukastelpur tóku góðan kafla einum leikmanni færri og höfðu forystu 14-11 í leikhléi.
Í seinni hálfleik tóku Haukastelpurnar öll völd á vellinum og buðu uppá sannkallaða hraðaupphlaupssýningu þar sem hornamennirnir Hanna og Ernu fóru fremstar í flokki og gerðu samtals 19 mörk. Haukaliðið komst fljótlega í sex marka forskot 19-13 og staðan var 27-15 þegar um 10 mínútur voru eftir að leiknum.
Leikurinn var klárlega sá besti sem stelpurnar hafa sýnt í haust. Samstaða, gleði og barátta einkenndi leik liðsins og þegar sá bragur er á liðinu er aldrei spurning hvernig leikar fara.
Hanna Guðrún Stefánsdóttir var markahæst í liði Hauka með 13 mörk, Ramune Pekarskyte og Erna Þráinsdóttir gerðu 6 mörk hvor. Ester Óskarsdóttir skoraði 4 mörk, Erla Eiríksdóttir 3, Nína Björk Arnfinnsdóttir skoraði 2 og Karen Helga Sigurjónsdóttir skoraði síðan 1 mark. Bryndís Jónsdóttir varði vel í markinu.
Myndir úr leiknum koma inn síðar í dag.