Haukar mæta Snæfelli í kvöld á Ásvöllum kl. 19:15 í Iceland Expressdeildinni. Haukasíðan heyrði í Henning Henningssyni þjálfara Haukaliðsins sem er bjartsýnn fyrir kvöldið.
Mynd: stefan@haukar.is
„Ég var að mörgu leiti nokkuð sáttur við KR leikinn þrátt fyrir tap. Vörnin var til fyrirmyndar á löngum köflum og við erum stöðugt að vinna í að slípa hlutina betur til sóknarlega” sagði Henning um síðasta leik en greinilegt batamerki var á liðinu frá því að þær mættu KR í meistara meistaranna.
„Við spiluðum tvo æfingaleiki gegn Snæfelli í haust þannig að bæði lið þekkja leikstíl hvors annars vel. Stelpurnar úr hólminum hafa komið sterkar til leiks og eru taplausar í deildinni enn sem komið er. Það má þ.a.l. alls ekki vanmeta þær, Snæfell er ofar á töflunni en við og það er okkar að sýna að við erum með gott lið og því munum við gera allt til að freista þess að stela sigri af toppliði Snæfells” sagði Henning sem vonar að fólk fjölmenni á leikinn.
„Við munum taka vel á móti vinum okkar úr Hólminum en gestrisninni sleppir þó vonandi þegar flautað verður til leiks. Ég hvet fólk til að mæta tímanlega til að tryggja sér miða, það verður ekki forsala á aðgöngumiðum og samningar við miði.is tókust ekki, sem sagt mæta og hafa gaman af.”