Haukar mæta liði Grindavíkur á morgun í umspili úrslitakeppninnar nú þegar að deildarkeppninni er lokið. Haukar sem spiluðu í B-riðli unnu sinn riðil með stæl og mæta því liðinu sem endaði í 4. sæti A-riðils sem er Grindavík.
Heimasíðan heyrði í Henning Henningssyni þjálfara Hauka sem segir að liðið sé búið að vera að undirbúa sig vel fyrir þessa hrinu.
„Við erum búin að undirbúa okkur vel fyrir þennan leik og erum staðráðin í að standa okkur vel. Að vanda eru einstaka leikmenn að glíma við meiðsl en ég reikna með að stilla upp mínu sterkasta liði á morgun” segir Henning.
„Þar sem við erum búin að vera í B riðlinum frá uppskiptingu deildarinnar þá lítum við á þessa seríu sem kærkomið tækifæri til að bera okkur saman við bestu lið deildarinnar. Það er ljóst að Grindavík er eitt þeirra liða þannig að við þurfum að sýna okkar bestu hliðar til að sína að við stöndumst góðu liðunum snúning” bætti Henning við og er ljóst að Haukar eru til alls líklegir eftir að hafa sýnt það og sannað í úrslitum bikarkeppninnar á dögunum.
Leikurinn á morgun hefst kl. 15:00 og er leikið í Röstinni, Grindavík. Óskað er eftir fjölmenni Haukamanna til að lita stúku Grindavíkur rauða.