Haukar unnu Fjölni fyrr í kvöld í undanúrslitarimmu liðanna í 1. deild karla. Þar með jöfnuðu Haukar einvígið í 1-1 og þarf því oddaleik á þriðjudagskvöld til þess að knýja fram sigurvegara. Lokatölur leiksins voru 70-73.
Haukar voru yfir næstum allan leikinn en Fjölnir leiddi 7-5 í upphafi. Eftir það voru það Haukar sem voru yfir og heimamenn voru allan leikinn að elta Haukana.
Haukar náðu um tíma 14 stiga forystu í 4. leikhluta en heimamenn neituðu að gefast upp og minnkuðu muninn á lokasprettinum og síðustu mínútur leiksins voru æsispennandi.
Sveinn Ómar Sveinsson skoraði síðasta stig leiksins þegar hann kom Haukum í 70-73 af vítalínunni. Fjölnir fór yfir og reyndi lokaskot sem geigaði.
Kristinn Jónasson var stigahæstur Haukamann í kvöld með 16 stig en hann tók einnig 12 fráköst. Kristinn skoraði 9 stig í 4. leikhluta.
Næsti leikur liðanna er á þriðjudagskvöld á Ásvöllum og hefst kl. 19.15.
Áfram Haukar!!!!
Mynd: Kristinn Jónasson sækir hér að körfu Fjölismanna í leiknum í kvöld – stefan@haukar.is