Haukastrákar á Ólympíuleikum ungmenna

Kristinn Pétursson og Karl Viðar Magnússon Eldsnemma í morgun héldu Haukastrákarnir Karl Viðar Magnússon og Kristinn Pétursson áleiðis til Nanjing í Kína til að keppa fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikum ungmenna 2014. Karl og Kristinn hafa náð þeim frábæra árangri að vera valdir í U-15 ára landslið Íslands í fótbolta. 204 þjóðir taka þátt í leikunum, keppt er í 222 greinum og fjöldi keppenda er um 3.800 ungmenni á aldrinum 14-18 ára. Í fótboltakeppni Ólympíuleikanna er eitt lið frá hverri heimasálfu og eru leikmenn liðanna allir fæddir árið 1999.

Íslenska U-15 ára landsliðið er fulltrúi Evrópu en þeir unnu sér keppnisrétt á leikana í undankeppni sem fram fór í Sviss á síðasta ári. Markmið með Ólympíuleikum ungmenna er ekki eingöngu sá að ná saman besta íþróttafólki heims á aldrinum 14-18 ára heldur er einnig lögð áhersla á það að keppnin sé ekki það eina sem skiptir máli fyrir ungmenni heimsins, heldur séu það jafnframt hin ólympísku gildi eins og heiðarleiki, vinátta, virðing og að gera sitt besta sem eiga að fá að njóta sín í íþróttunum og í samskiptum milli einstaklinga. Þátttakendur þurfa því að leggja sitt af mörkum í menningartengdum og félagslegum verkefnum sem einnig eru á dagskrá leikanna. Við Haukafólk eru stollt af því að eiga glæsilega fulltrúa á þessum stórviðburði sem Ólympíuleikar eru og óskum við þeim alls hins besta í þessari ævintýraför.

Ólympíuleikar ungmenna 2014 standa frá 16. – 28. ágúst og hægt er að fylgjast með á heimasíðu leikanna: Smellið hér. og á heimasíðu ÍSÍ: Smellið hér.

Áfram Haukar!